Nýr gagnagrunnur Sögu á Suðurlandi

saga-01Fyrsta áfanga í sameiningu sjúkraskrár Sögu á Suðurlandi er lokið.  Nú um helgina 7. – 8. maí voru Sögugrunnar fyrrum HSu og gömlu Heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmannaeyjum, Hsve sameinaðir.  Þá er lokið við að sameina tvo af þremur grunnum hjá HSU í einn sameiginlegan grunn.  Áætlað er að þriðji gagnagrunnurinn hjá fyrrum HSSa á Hornafirði verður sameinaður í nýja kerfið á næstu vikum.

 

Gríðarleg vinna er að að baki til að gera þetta mögulegt og svona hlutir gerast ekki á einni nóttu. Þetta er mikið verk og flókið og ýmislegt við vinnuna, sem ekki er unnt að gera öðruvísi en handvirkt og er því tímafrekt. Þjónustuaðilar upplýsingakerfa HSU hjá TRS eiga hrós skilið fyrir hvað vel gekk, en þeir unnu að sameiningunni í samstarfi við TM Software og aðgangsstjóra HSU.

 

Til að geta sameinað Sögukerfin saman þurfti fyrst að fara í vinnu við að leggja ljósleiðara inn í stofnunina í Vestmannaeyjum, sameina tölvukerfin og í kjölfarið var hægt að fara vinnuna við að sameina Sögugrunninn.  Vinnan við sameininguna gekk vel og engin stórvægileg vandræði sem komu upp og þeir fáu hnökrar sem komu uppá voru leystir fljótt og vel.  Næstu daga verður unnið að því að kenna starfsmönnum HSU í Vestmannaeyjum á kerfið.

 

Sameining Sögukerfisins er gríðarlegt hagræði fyrir starfsmenn stofnunarinnar og til þæginda fyrir alla starfsmenn, því nú verður hægt að fletta upp upplýsingum í sama grunni á öllum stöðvum HSU. Eitt sjúkraskrárkerfi á Suðurlandi tryggir jafnframt öryggi íbúanna með virku flæði upplýsinga og auðveldar öll samskipti í heilbrigðisþjónustunni.