Nýr framkvæmdastjóri fjármála kemur til starfa 1. nóvember n.k.

Björn Steinar PálmasonBjörn Steinar Pálmason hefur verið skipaður í stöðu framkvæmdastjóra fjármála hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands frá 1. nóvember 2015 til 5 ára. Hann mun taka við stöðunni þann 1. desember n.k., en þá mun Esther Óskarsdóttir framkvæmdastjóri fjármála láta af störfum eftir 33 ára starf hjá stofnuninni.

 

Björn Steinar er fæddur árið 1967. Hann lauk BA gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1994 og viðbótarmenntun í rekstri og viðskiptum frá Endurmenntun Háskóla Íslands árið 1996.  Björn lauk MBA gráðu í viðskiptafræði frá University of Edinburgh Business School árið 2002. Árið 2009 lauk Björn námi frá Endurmenntun Háskóla Íslands í verkefnastjórnun og hefur hlotið IPMA D-vottun í verkefnastjórnun.

 

Björn Steinar hefur víðtæka reynslu af opinberum rekstri og úr bankakerfinu. Hann hefur frá 2014 verið sjálfstætt starfandi fjármálasérfræðingur og  m.a. sinnt úttektum á rekstri fyrir sveitarfélög. Frá 2010-2014 var hann framkvæmdastjóri og bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar og náði eftirtektarverðum árangri í viðsnúningi í rekstri bæjarins í samvinnu við bæjarstjórn og starfsmenn sveitarfélagsins.  Á bæjarstjóraárunum var meginþunginn í starfi hans fólgin í að styrkja erfiðan rekstur sveitarfélagsins og lagði áherslu á að bæta lausafjárstöðu og snúa tapi í rekstrarafgang og endursemja við lánadrottna.  Viðsnúningur í rekstri vakti athygli og var til umræðu á fjármálastefnu sveitarfélaga tvö ár í röð.  Á árunum 2008-2010 var hann sérfræðingur í innri endurskoðun hjá BYR Sparisjóði og vann í úttektum á áhættuþáttum í rekstri sjóðsins.  Um tíma var hann einnig forstöðumaður innri endurskoðunar hjá BYR.  Á árunum 2007-2008 starfaði Björn Steinar sem skrifstofustjóri bæjarskrifstofu sveitarfélagsins á Álftanesi og frá 2003-2007 var hann skrifstofustjóri Grundarfjarðarbæjar. Frá 1987-2001 starfaði Björn Steinar í lánadeild og hagdeild og síðar sem forstöðumaður miðvinnslu og forstöðumaður reikningshalds hjá SPRON.

 

Við á HSU bjóðum Björn Steinar velkominn í okkar hóp.

 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri.