Tveir nýjir sérfræðingar hafa verið ráðnir til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og mun starfsaðsetur þeirra vera á Selfossi. Báðir hófu störf 1. september s.l.
Hjörtur Haraldsson er sérfræðingur í fæðinga- og kvensjúkdómalækningum. Hann mun sinna starfi kvensjúkdómalæknis á Selfossi.
Hjörtur útskrifaðist frá Læknadeild Háskóla Íslands árið 2010 og starfaði sem kandídat og deildarlæknir á Sjúkrahúsinu á Akureyri til vorsins 2012. Hann flutti til Danmerkur og sérhæfði sig í kvensjúkdómalækningum á sjúkrahúsinu í Óðinsvéum eftir styttri stopp í skurðlækningum og svæfingalækningum. Meðfram sérnámi sínu hefur hann verið virkur í klínískri vinnu á heilsugæslum víðs vegar á Íslandi og í Noregi, ásamt því að sinna ýmsum aukavöktum á fjölbreyttum deildum um alla Danmörku. Hann kláraði sérhæfingu sína í fæðinga og kvensjúkdómalækningum vorið 2019 og var eftir það fastráðinn á teymi almennra kvensjúkdómalækninga Háskólasjúkrahússins með áherslu á blæðingavandamál og vöðvahnúta. Hann er einnig með töluverða reynslu í greiningu á endómetríósu og tilheyrði þverfaglegu teymi sjúkrahússins um málefni og meðferð trans einstaklinga. Hjörtur mun einnig vinna á Bráðamóttöku HSU á Selfossi og eftir atvikum vinna á öðrum stöðvum upptökusvæðis HSU næstkomandi misseri. Hjörtur er giftur Guðrúnu Geirsdóttur húsmóður og saman eiga þau 2 syni.
Vignir Sigurðsson er sérfræðingur í barnalækningum með áherslu á meltingarsjúkdóma barna. Hann mun sinna almennum barnalækningum og vinna að því að færa sérfræðiþjónustu barnalækna nær fjölskyldum á Suðurlandi.
Vignir er uppalinn í Hveragerði, kvæntur Ingibjörgu Sigurðardóttur kennara og eiga þau saman þrjú börn. Hann útskrifaðist frá Læknadeild Háskóla Íslands árið 2011. Fluttist til Gautaborgar í Svíþjóð árið 2013 og hóf sérnám í barnalækningum á Sahlgrenska sjúkrahúsinu ásamt doktorsnámi við Gautaborgarháskóla. Guðmundur Vignir lauk sérnáminu árið 2019 og starfaði eftir það áfram á meltingardeild barna samhliða doktorsnámi sem lauk með doktorsprófi í barnalækningum með áherslu á meltingarsjúkdóma barna vorið 2021.
Það er mikið fagnaðarefni að fá þá til starfa á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og mun efla til muna sérhæfða læknisþjónustu sem HSU veitir á Suðurlandi. HSU býður þá hjartanlega velkomna til starfa og óskar þeim velfarnaðar í störfum sínum hjá stofnuninni.