Nýja hjúkrunarheimilið á Selfossi

Á komandi vikum opnar glæsilegt hjúkrunarheimili á Selfossi. Hjúkrunarheimilið er skemmtileg viðbót við þau hjúkrunarheimili sem fyrir eru á Suðurlandi. Nýja heimilið er byggt í hring með skjólgóðum garði í miðjunni sem býður upp á skemmtilegt útisvæði. Húsnæðið sjálft er útbúið öllum helstu nútímaþægindum og uppfyllir alla nútímastaðla. Það er því tilhlökkunarefni að bjóða nýjum íbúum velkomna á heimilið. Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) mun annast reksturinn á heimilinu og verður lögð rík áhersla á að skapa heimilislegt og notalegt umhverfi þar sem gott er að búa. Þá verður faglegur metnaður og fagleg þekking höfð í fyrirrúmi. Á heimilinu verður pláss fyrir 60 íbúa en byggingunni er skipt upp í fimm heimiliseiningar með 12 rými í hverri einingu.

 

Árið 2016 var rekstri hjúkrunarheimila á Kumbaravogi og Blesastöðum hætt. Í þeirra stað voru tímabundið opnuð viðbótarrými á þeim hjúkrunarheimilum sem fyrir voru á Suðurlandi. Þessi rými áttu að brúa bilið þar til nýtt hjúkrunarheimili yrði opnað. Vegna skorts á hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu hefur heilbrigðisráðuneytið og Sveitarfélagið Árborg sammælst um að halda þessum tímabundnu rýmum áfram í rekstri fyrst um sinn og bjóða einstaklingum sem eru á biðlista eftir hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu velkomna á Suðurland. Gert er ráð fyrir að nýta 35 til 40 hjúkrunarrými fyrir íbúa höfuðborgarsvæsins, en það samsvarar þeim tímabundnu viðbótarrýmum sem átti að loka við opnun nýja hjúkrunarheimilisins. Þessi ráðstöfun hjúkrunarrýmanna fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins mun því í framtíðinni ekki hafa áhrif á þau pláss sem ráðgerð voru fyrir Sunnlendinga þegar ákveðið var að byggja nýtt hjúkrunarheimili á Selfossi.

 

Undirbúningur fyrir opnun heimilisins er í fullum gangi og ráðningarferli eru í undirbúningi. Alls er gert ráð fyrir rúmlega 40 nýjum stöðugildum við heimilið og erum við bjartsýn á að geta ráðið til okkar gott og öflugt starfsfólk sem er tilbúið að byggja upp metnaðarfullt starf á heimilinu. Opnun nýja hjúkrunarheimilisins er tilhlökkunarefni og við hjá HSU erum svo sannarlega tilbúin fyrir þetta stóra og ánægjulega verkefni.

 

Ört stækkandi samfélag á Suðurlandi og hækkandi lífaldur Íslendinga kallar á nýja sýn í þjónustu við eldri borgara. Við hjá HSU sjáum mörg tækifæri í þeim málaflokki og viljum byggja upp öfluga þjónustu fyrir eldri borgara. Markmið HSU er m.a. að bjóða upp á heildræna öldrunarþjónustu með áherslu á snemmtækri íhlutun með forvörnum, fræðslu og stuðningi sem stuðlar að andlegri og líkamlegri virkni. Með þessu móti sjáum við fyrir okkur að draga úr þörfinni á fjölgun hjúkrunarrýma í framtíðinni og efla þess í stað aðrar lausnir sem vonandi veita einstaklingum meira frelsi og betri lífsgæði.

 

Það er ljúft og gott að eldast og mikilvægt að geta treyst á góðan stuðning. HSU er að vinna að framtíðarstefnu í öldrunarþjónustu þar sem markið er sett á að vera leiðandi í þjónustu og umönnun aldraðra og tryggja þannig gott bakland og stuðningsnet fyrir aldraða íbúa á Suðurlandi.

 

Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU