Nýir sjúkrabílar hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Formleg afhending nýrra sjúkrabíla Rauða krossins á Íslandi er hafin. Þetta eru stór tímamót í þjónustu sjúkraflutninga og skiptir miklu máli fyrir sjúkraflutningamenn sem sinna þessu mikilvæga verkefni. Einn bíll er nú þegar kominn til HSU og fleiri fylgja svo í kjölfarið.
Þetta er fagnaðarefni því þörfin á endurnýjun sjúkrabifreiða var orðin aðkallandi. Nýju sjúkrabílarnir eru af gerðinni Mercedes Benz Sprinter og uppfylla þeir ströngustu kröfur sérfræðinga varðandi öryggi, aðbúnað og vinnuumhverfi. Bílarnir skarta nýju útliti en þeir eru fagurgulir með köflóttu mynstri og röndum sem eiga að auka sýnileika bifreiðanna enn frekar.