Nýbygging vígð

Fyrsti hluti nýrrar 5.256 fermetra viðbyggingar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu) á Selfossi var formlega tekin í notkun í dag. Nýbyggingin er þrjár hæðir auk kjallara. Áætlaður heildarkostnaður við bygginguna er 1,5 milljarðar króna. Framkvæmdir við bygginguna hófust síðla árs 2004. Núverandi húsnæði sjúkrahússins er um 4.500 fermetrar, þannig að um tvöföldun er að ræða með tilkomu nýju byggingarinnar.

Fjöldi hjúkrunarrýma aldraðra á Selfossi eykst um 60%


Með tilkomu nýju byggingarinnar fjölgar hjúkrunarrýmum fyrir aldraða úr 26 í 40 á Selfossi, eða um tæp 60%. Öll herbergi á hjúkrunardeildunum eru einstaklingsherbergi. Heilsugæslan fær nýtt og rúmbetra húsnæði á 1. hæð, endurhæfingaraðstaða verður stórbætt, auk þess sem stofnunin fær nýjan og stórglæsilegan aðalinngang og anddyri. Í eldri byggingunni verður efld aðstaða fyrir rannsóknadeild, læknamóttökur og skrifstofur.


Magnús Skúlason forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands:


„Nú er verið að taka í notkun fyrsta áfanga framkvæmdanna sem er hjúkrunardeildin á 2. hæð með 20 rúmum. Nýr aðalinngangur og anddyri með afgreiðslu og símavakt. Á næstunni verður ný kapella tilbúin og í apríl verður hin hjúkrunardeildin á 3. hæð tekin í notkun, ásamt aðstöðu fyrir endurhæfingu í kjallara. Þetta hefur gengið mjög vel þó svo á ýmsu hafi gengið. Ég er afar ánægður með hversu jákvætt hugarfar hefur verið gagnvart þessari framkvæmd. Starfsfólk, íbúar, þingmenn og sveitarstjórnir hafa stutt vel við bakið á þessu verkefni og það skiptir miklu máli. Hér er um að ræða mikið hagsmunamál fyrir þá 20 þúsund íbúa sem við þjónustum.“


Stefnt er að því að bjóða út framkvæmdir við að ljúka 1. hæð og kjallara, á fyrri hluta ársins. Jafnframt er eftir að ráðast í nauðsynlegar breytingar á eldri byggingunni en ekki liggur fyrir tímasetning hvenær þær breytingar verða boðnar út.


Helstu hönnuðir og eftirlitsaðilar


Arkitekt;


Teiknistofan Óðinstorgi, arkitekt Helgi Hjálmarsson.


Burðarþol og lagnir;


Verkfræðistofa Guðjóns Sigfússonar ásamt VGK-Hönnun


Rafkerfi; Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar.


Umsjón með hönnunarferli f.h. Heilbrigðisráðuneytis hafði Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen Umsjón með útboði og verkframkvæmd var í höndum Framkvæmdasýslu ríkisins Eftirlit með framkvæmdum f.h Framkvæmdasýslu ríkisins hafði Línuhönnun ásamt Verkfræðistofu Suðurlands


Á morgun, föstudaginn 25. janúar milli kl. 15 – 17 verður opið hús fyrir almenning til að skoða nýbygginguna.


Um Heilbrigðisstofnun Suðurlands


Starfsemi HSu skiptist í meginatriðum í þrennt: Heilsugæslu, sjúkrahús og hjúkrunardeildir aldraðra. Heilsugæslustöðvar eru átta, frá Þorlákshöfn og Hveragerði í vestri til Kirkjubæjarklausturs í austri. Sjúkrahús er á Selfossi þar sem m.a. er veitt þjónusta í fæðingar- og kvensjúkdómalækningum, skurðlækningum, lyflækningum, barnalækningum, myndgreiningu, rannsóknum og sjúkraþjálfun. Í nýbyggingunni verða síðan tvær hjúkrunardeildir fyrir aldraða, samtals 40 rúm. Þá annast stofnunin alla sjúkraflutninga á Suðurlandi, ásamt því að reka Réttargeðdeildina að Sogni þar sem vistaðir eru ósakhæfir einstaklingar. Alls eru um 220 stöðugildi hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.