Ný lög um heilbrigðisþjónustu taka gildi

Þann 1. september 2007 tóku gildi ný lög um heilbrigðisþjónustu sem samþykkt voru á Alþingi síðast liðið vor. Eldri lög um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 eru að stofni til frá árinu 1973 og voru orðin úrelt og óskýr í ýmsum atriðum. Nýju lögin eru afrakstur viðamikils nefndastarfs þar sem þátt tóku m.a. fulltrúar stjórnmálaflokka, landlæknis, Læknafélags Íslands, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sjúklingasamtaka og aðila vinnumarkaðarins.

Meginmarkmið hinna nýju laga er í fyrsta lagi að mæla með skýrum hætti fyrir um grunnskipulag hins opinbera heilbrigðisþjónustukerfis. Í öðru lagi að setja ráðherra og öðrum heilbrigðisyfirvöldum og einstökum heilbrigðisstofnunum sem reknar eru af ríkinu skýran lagaramma til að starfa eftir. Í þriðja lagi að tryggja virkt eftirlit með heilbrigðisþjónustu og gæðum hennar og í fjórða lagi að skilgreina nánar stefnumótunarhlutverk ráðherra innan marka laganna og tryggja að hann hafi á hverjum tíma fullnægjandi valdheimildir til að framfylgja stefnu sinni, m.a. um skipulag heilbrigðisþjónustu, forgangsröðun verkefna innan hennar, hvar hún skuli veitt og af hverjum.

Lögin byggja á því grundvallarsjónarmiði að haldið skuli uppi öflugu opinberu heilbrigðiskerfi sem allir landsmenn eigi jafnan aðgang að óháð efnahag og búsetu.  Lögð er áhersla á að almenn heilbrigðisþjónusta sé veitt í heimabyggð og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Kveðið er á um hlutverk Landspítala sem aðalsjúkrahús landsins og háskólasjúkrahús og hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri sem kennslusjúkrahús og sérhæft sjúkrahús.

Sjá nánar