Ný kapella vígð á HSu

Þann 16. nóvember  var vígð ný kapella í Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.  Hin nýja kapella er í nýbyggingu stofnunarinnar, en 1. áfangi hennar var tekinn í notkun í byrjun þessa árs.
Fyrir rúmu ári var eldri kapellu stofnunarinnar tekin úr notkun vegna tengingar eldri og nýrri byggingar.  Síðan hefur verið unnið að tengingu gömlu og nýju byggingarinnar, ásamt innréttingu á hinni nýju kapellu.
Oddfellowreglan á Suðurlandi þ.e. Rebekkustúkan nr.9 Þóra og Oddfellowstúkan Hásteinn nr.17 tók að sér innréttingu kapellunnar. Þetta ákváðu stúkurnar að gera í tilefni af 15 ára afmæli þeirra á síðasta ári.

Þetta framtak Oddfellowreglunnar á Suðurlandi er lofsvert og göfugt.  Reglan hefur lagt fram ómælda vinnu, fjármuni og alúð við smíðar, raflagnir, pípulagnir, múrverk og málningu, ásamt kaupum á búnaði og innanstokksmunum. Allt var þetta gert í góðri samvinnu við Helga Hjálmarsson arkitekt hússins. Vel hefur tekist til við hönnun kapellunnar.  Framkvæmd og stuðningur fórnfúss fólks með jákvætt hugarfar að leiðarljósi hefur leitt til þess, að á heilbrigðisstofnuninni er nú falleg og hlýleg kapella.


Skjólstæðingar HSu og aðstandendur þeirra geta átt saman góðar stundir þegar mikið liggur við á friðsælum stað.


Gjöf Oddfellowreglunnar á Suðurlandi er rausnarlegt og höfðinglegt framtak sem lýsir velvilja og góðum hug til skjólstæðinga Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.


Það var Vígslubiskupinn i Skálholti, sr. Sigurður Sigurðarson sem vígði kapelluna. Viðstaddir athöfnina voru félagar í Oddfellowreglunni á Suðurlandi,fulltrúar frá Styrktar og líknarsjóði Oddfellowa á Íslandi, prestar á Suðurlandi ásamt stjórnendum HSu.


Við athöfnina voru færðir í hina nýju kapellu gripir sem áður tilheyrðu eldri kapellu stofnunarinnar s.s. róðukross, biblía, sálmabækur og kertastjakar. Þá færði Svanborg Egilsdóttir, glerlistakona og félagi í Rbst. nr. 9 Þóru kapellunni að gjöf skírnarskál sem hún hefur gert. Einnig gaf vígslubiskup sr. Sigurður Sigurðarson, kapellunni oblátuöskju.


Hið nýja altari er úr stuðlabergi frá Hrepphólum í Árnessýslu og var það smíðað í steinsmiðju S. Helgasonar af Þór Sigmundssyni, steinsmið en Þór er ættaður frá Selfossi. Tréverk er frá Trésmiðjunni Fagus í Þorlákshöfn. Stólar í kapellu og húsgögn á skrifstofu prests og í anddyri eru frá A. Guðmundsson.