Ný hjúkrunardeild á 3ju hæð

Þann  28. apríl n.k. mun starfsemi hefjast á nýrri hjúkrunardeild fyrir aldraða á 3ju hæð HSu á Selfossi. 
Forstjóri HSu, heilbrigðisráðherra og þingmenn við athöfnina.


Deildin var vígð við formlega athöfn í dag 25. arpíl að viðstöddum Heilbrigðisráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmönnunum Kjartani Ólafssyni og Guðna Ágústssyni, sveitarstjórnarmönnum, starfsfólki o.fl.  Magnús Skúlason forstjóri HSu og Anna María Snorradóttir, hjúkrunarforstjóri lýstu þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er og Magnús sagði frá þeirri uppbyggingu sem á sér stað á vegum stofnunarinnar.
Hörpukórinn, kór aldraðra söng við athöfnina.  Samkeppni um nafn fór fram meðal starfsfólks og hlaut hún nafnið Fossheimar en það var tillaga starfsstúlkna í eldhúsi HSu.
Deildin skiptist í tvær einingar, annars vegar 8 rúma einingu og hins vegar 12 rúma einingu.  Til að byrja með verður tekin í notkun minni einingin, en hún er ætluð fólki með heilabilun. Stærri einingin, sem verður almenn hjúkrunardeild, verður opnuð með haustinu.


Minni einingin er sérstaklega skipulögð með tilliti til fólks með heilabilun.  Hún er lítil í sniðum og reynt verður eftir fremsta megni að skapa heimilislegt umhverfi.  Áhersla verður lögð á rólegt og gott viðmót, virðingu, alúð og jafnræði. Við leggjum áherslu á gott samstarf við aðstandendur og  fræðslu  fyrir starfsfólk. 


 

Markmið einingarinnar eru:


Að skjólstæðingarnir njóti lífsgæða með því að styrkja andlega, félagslega og líkamlega færni.


Að viðhalda færni til athafna daglegs lífs með því að hvetja til virkni samkvæmt getu og áhuga hvers og eins.


Að viðhalda sambandi skjólstæðinga og aðstandenda með góðri samvinnu og þjónustu við aðstandendur.


Einkenni heilabilunar eru minnistap, erfiðleikar við að átta sig á umhverfi sínu, erfiðleikar við að tjá sig og/eða skilja aðra, ásamt því að framkvæma ýmsar athafnir daglegs lífs. Algengasta orsök heilabilunar er Alzheimersjúkdómur, svo og „Lewy body“ sjúkdómur og þar á eftir afleiðingar hjarta- og æðasjúkdóma svo það helsta sé nefnt. Sjúkdómurinn leggst mismunandi á fólk og því er mikilvægt að veita einstaklingsmiðaða þjónustu þar sem þarfir hvers og eins eru metnar og þeim mætt.