Ný Björgunarmiðstöð í Árborg

Í gær var tekin fyrsta skóflustungan að nýrri byggingu Björgunarmiðstöðvar Árborgar ehf., sem mun rísa á lóð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands við Árveg á Selfossi,  vestan við nýbyggingu HSu sem nú er í byggingu. Ennfremur var undirrituð viljayfirlýsing um samstarf Björgunarmiðstöðvarinnar og HSu vegna byggingarinnar.Björgunarmiðstöðin hefur tekið á leigu lóð undir húsið, sem er í eigu HSu, og mun sjá um framkvæmd og kostnað við deiliskipulag lóðarinnar.
Í hinni nýju björgunarmiðstöð mun verða aðstaða fyrir starfsemi Björgunarfélags Árborgar, aðstaða fyrir sjúkraflutninga í Árnessýslu, sem HSu rekur, og einnig er gert ráð fyrir að Brunavarnir Árnessýslu verði þarna til húsa. Stefnt er að því að húsið verði tilbúið í árslok 2007.
Húsið verður 1450 fermetrar að grunnfleti og að hluta til á þremur hæðum.

Fjölmenni var við athöfnina og voru þar mættir m.a. sveitarstjórnarmenn, fulltrúi frá Landsbjörgu, björgunarsveitarmenn, frambjóðendur í komandi sveitarstjórnarkosninum o. fl. Það voru þeir Magnús Skúlason, framkvæmdastjóri HSu og Páll G. Sigurþórsson, sem er einn af stofnendum Björgunarsveitarinnar Tryggva á Selfossi sem tóku fyrstu skóflustungurnar.  (sjá mynd).


Magnús Skúlason og Páll G. Sigurþórsson taka fyrstu skóflustungurnar.