Ný aðstaða fyrir rannsóknarstofu og myndgreiningu tekin í notkun á Selfossi

 

 

 

 

 

 

 

Í byrjun febrúar sl. var formlega tekin í notkun ný aðstaða fyrir rannsóknarstofu og myndgreiningardeild HSU á Selfossi, en framkvæmdir hafa staðið yfir á húsnæði deildanna í vetur.  Rannsóknarstofan var færð í kjallara hússins, tímabundið, á meðan framkvæmdum stóð, enda var húsnæðið tekið algerlega í gegn, skipt um lagnir, loft og gólfefni ásamt hurðum og innréttingum.  Við framkvæmdirnar var aðstaða rannsóknar stækkuð talsvert, um sem nam því plássi sem fyrrum matsalur starfsmanna var í áður.  Fyrr á síðast ári var eldhús HSU tekið til endurbóta og nýr matsalurinn útbúinn fyrir starfsfólk.

Ný aðstaða rannsóknardeildarinnar og myndgreiningardeildarinnar er á sama stað og áður á norðurgangi á fyrstu hæð hússins.  Aðstaða myndgreiningardeildarinnar var einnig tekin í gegn og þurfti að loka henni að hluta um tíma meðan á framkvæmdunum stóð, en framkvæmdir við aðstöðu myndgreiningardeildar hafa tekið lengri tíma og verið teknar í áföngum, því samtímis breytingum á húsnæði var skipt um stór tæki deildarinnar.  Nýtt röntgentæki var tekið í notkun á síðasta ári og nú nýverið var nýtt CT sneiðmyndatæki tekið í notkun sem keypt var fyrir gjafafé í sjóði HSU. Við allar þessar húsnæðisbreytingar fékk ómskoðunin nýja, stærri og betri aðstöðu á sama gangi.

Húsið sem hýsir starfsemina á Selfossi var tekið í notkun fyrir 36 árum en síðan þá hefur verið bætt við húsið nýjum inngangi með móttöku og þriggja hæða álmu sem hýsir m.a. hjúkrunardeildir, heilsugæslu ásamt annarri starfsemi og var það tekið í notkun á árunum 2008-2010.  Til stendur að halda áfram við lagfæringar á eldra húsnæðinu enda margt komið á eðlilegan endurnýjunartíma fyrir all löngu síðan. Unnið er að úttekt á eldra húsnæði HSU á Selfossi sem ekki hefur fengið nægjanlegt viðhald síðustu áratugi.  Ljóst er að ástand hússins er slæmt þar sem viðhaldsframkvæmdum er ekki lokið.  Sárlega vantar að vinna nauðsynlegar endurbætur á göngudeild, bráðamóttöku, lyflækningadeild og skurðstofugangi sjúkrahússins á Selfossi.  Jarðskjálftar í upphafi þessarar aldar hafa átt sinn þátt í að auka þörf á viðhaldi húsa á Suðurlandi og er húsnæði HSU engin undantekning þar.

Við fögnum því hins vegar að breytingar á húsnæði rannsóknar- og  myndgreiningardeildarinnar hafa heppnast einstaklega vel, starfsfólki og skjólstæðingum HSU til hagsbóta.  Á þessum deildum er framkvæmdar rannsóknir á sýnum fyrir um 17.000 sjúklinga árlega með ríflega einni miljón eininga af rannsóknum og framkvæmdar eru um 6.500 myndgreiningarrannsóknir. Þetta er því afar mikilvæg þjónusta fyrir Sunnlendingar sem unnin er á sjúkrahúsinu á Selfossi. Við ánægð að þessum endurbótum er lokið og óskum starfsfólki þessara tveggja deilda innilega til hamingju með nýju aðstöðuna.

 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU