Nudd- og nálastungumeðferðir fyrir barnshafandi konur

Meðganga felur í sér ýmsar breytingar á líkamsstarfsemi og almennri líðan konunnar. Talið er að helmingur allra barnshafandi kvenna glími við sársauka í baki og mjaðmagrind. Mjaðmagrindarverkir geta verið mjög sárir og þeir hafa áhrif á lífstíl og lífsgæði en einnig neikvæð áhrif á gæði svefns og auka því hættu á meðgönguþunglyndi. Nálastungumeðferð hefur verið notuð með góðum árangri við mjaðmagrindarverkjum á meðgöngu. Íslensk rannsókn á notkun nálastungumeðferðar á grindarverki sýndi fram á jákvæð áhrif meðferðarinnar fyrir barnshafandi konur. Niðurstöður rannsóknarinnar voru að meðferð sem er veitt í sex til átta skipti getur aukið hreyfifærni og getu til daglegra athafna. Jafnframt voru áhrif á svefn og andlega líðan jákvæð. Telja rannsakendur að nálastungumeðferð sé góður valkostur fyrir barnshafandi konur með verki frá grind og að meðferðin samræmast þjónustu sem ljósmæður veita á meðgöngu. Ljósmæður á Fæðingardeild HSU veita nálastungumeðferðir við ógleði, mjaðmagrindarverkjum og fleiri meðgöngutengdum kvillum.

Nudd er snerting sem er veitt af umhyggju meðferðaraðilans fyrir skjólstæðingi sínum og hafa rannsóknir sýnt fram á gagnsemi nudds til að veita slökun og auka vellíðan. Nudd hefur margþætt áhrif á heilsu okkar, það örvar blóðflæði, slakar á vöðvum, örvar meltingar- og sogaæðakerfi og hvetur þannig til aukins útskilnaðar. Nudd fyrir barnshafandi konur stuðlar að minni streitu, veitir slökun og bætir gæði svefns. Kenningar um áhrif nudds og nálastungu eru nokkrar, er hliðatilgátan ein þeirra. Hún felur í sér að verkjaskilaboð ferðist hægar og með öðrum taugaþráðum en skilaboðin sem þrýstingurinn kemur af stað og því komist þau skilaboð fyrr til heilans og loki hliðinu á verkjaskilaboðin.Vegna þessara áhrifa er talið að meðferðirnar henti vel sem verkjastilling í fæðingu.

Þátttaka maka í nuddmeðferð á meðgöngu og í fæðingu hefur einnig aukist með tilkomu námskeiða, þá er makanum gefið hlutverk í fæðingarferlinu með því að taka þátt í nuddmeðferð og sýna rannsóknir að það efli öryggi þeirra og ánægju í fæðingarferlinu.

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Margrét Unnur Sigtryggsdóttir

Nuddari og ljósmóðir M.S.