Neyðarútgangur á norðurgafli HSu fjarlægður

Neyðarútgangurinn sagaður niður.

Þessa dagana er unnið hörðum höndum að því að fjarlægja neyðarútganginn norðanmegin á byggingu HSu.  Notast er við öfluga steypusög á vegum verktakans Kristjáns Jónssonar og miðast verkið vel. 

Neyðarútgangurinn var byggður um leið og eldri hluti hússins og hefur aldrei verið notaður.  Fljótlega kom í ljós hönnunargalli á honum, því nánast var ógerlegt að ná beygjunni á stigapallinum, vegna þrengsla, ef verið var að flytja rúm eða sjúkrakörfu.

Þegar lokið hefur verið við að fjarlægja neyðarútganginn verður settur upp stálstigi, sem uppfyllir nútímakröfur um neyðarútganga.

Fyrirhugaðar eru framkvæmdir við breytingar á eldri hluta HSu og verið er að vinna undirbúningsvinnu áður en verkið getur hafist.

Þess má geta til fróðleiks að fyrstu teikningar af eldri byggingu HSu voru lagðar fram af Húsameistara Ríkisins í okt. 1968 og höfðu þá verið í vinnslu frá okt 1965, eða í 3 ár. Einhverjar breytingar voru síðan gerðar á teikningunum og miklar tafir urðu á því að vinna við byggingu hússins hæfist.  Í lok árs 1972 var loks grafið fyrir húsinu og árið þar á eftir hófust framkvæmdir.  Bygging hússins tók nokkur ár, ýmsar tafir urðu þess valdandi og á byggingatímanum höfðu ýmsar kröfur breyst og var þá farið í að breikka einhver hurðaop og brjóta niður veggi til að stækka sum rými.  Það var svo ekki fyrr en haustið 1978 sem heilsugæslan var tekin í notkun og húsið var ekki formlega afhent fyrr en 18. desmeber 1981.  Það má því segja að byggingsaga hússins spanni um 20 ár.