Nárakviðslit

Hvað er kviðslit ?
Kviðslit er það kallað þegar líffæri eða hluti af líffæri, oftast lífhimna eða fituhengi þrýstist út um gat eða veikbyggðan hluta vöðvavefs, sem annars styður við líffærið og veitir því aðhald. Algengast er að kviðslit myndist á neðri hluta kviðar og sést þá sem útbungun eða þroti í nára.

Framkvæmd aðgerðar
Aðgerðin er framkvæmd með opinni aðgerð, oftast í deyfingu en stundum í svæfingu og fer það eftir legu og stærð kviðslitsins. Í aðgerðinni er lífhimnupoki (útbungun) fjarlægður og gert er við veikleikann í kviðveggnum. Oft er sett net (bót) til að styrkja kviðvegginn og þannig minnka líkur á endurteknu kviðsliti. Aðgerðin tekur alla jafna innan við klukkustund.

Mikilvægt er að hætta á blóðþynningarlyfjum 7 dögum fyrir aðgerð eða rannsókn — þó alltaf í samráði við lækni.


Undirbúningur fyrir aðgerð:
Þú mætir á legudeildin á II: hæð HSu kl. 10:00 daginn fyrir aðgerð
Þú þarft ekki að vera fastandi þá.
Hjúkrunarfræðingur tekur á móti þér, fær hjá þér nauðsynlegar upplýsingar, fer yfir þennan bækling með þér og sýnir þér deildina. Tekin verður af þér sjúkraskýrsla og svæfingalæknir ræðir við þig.
Þú ferð í sturtu um kvöldið og þarft að vera fastandi frá miðnætti, þ.e.a.s. mátt hvorki borða, drekka né reykja frá þeim
Nauðsynlegt er að fjarlægja líkamshár af aðgerðasvæðinu með háreyðandi kremi.


Mikilvægt er að þú hvílist vel nóttina fyrir aðgerð.


Það sem þarf að hafa meðferðis:


Lyf eða lyfjakort,
Náttslopp, inniskó og snyrtiáhöld.
Að morgni aðgerðardags
Þú mætir á legudeild HSu að morgni aðgerðardags skv. umtali. Til að undirbúa svæfingu færð þú forlyf, töflu um 1/2—1 klst fyrir aðgerð. Áður þarft þú að tæma þvagblöðruna en eftir það mátt þú ekki fara fram úr rúminu nema í fylgd
Þú þarft að fjarlægja gleraugu, linsur, alla skartgripi, naglalakk og andlitsfarða fyrir aðgerð. Lausar tennur má hafa með sér á skurðstofu.


Eftir aðgerð:


Þú vaknar fljótlega á vöknunarherbergi. Fylgst verður með blóðþrýstingi og hjartslætti í 2-3 klst. Þú verður með næringarvökva í æð þangað til þú ert vel vöknuð/vaknaður og farin(n) að drekka.
Verkir:
Skurðsvæðið er venjulega aumt í byrjun og eðlilegt að þú fáir einhverja verki eftir aðgerðina. Verkjalyf eru gefin eftir þörfum. Notaðu verkun þeirra til að hósta upp slími, gera öndunaræfingar og hreyfa þig eftir getu.
Athugaðu að fara ekki fram úr rúmi í fyrsta sinn nema með aðstoð.
Ekki reykja fyrr en þú hefur borðað og áhrif svæfingarlyfja eru horfin.


Venjulega er heimferð daginn eftir aðgerð. Fyrir heimferð er skurðsárið skoðað og skipt á umbúðum. Það er í lagi að fara í sturtu 1-2 dögum eftir aðgerð en varast skal að láta blautar umbúðir vera á sárinu. Ekki er ráðlagt að fara í sund eða bað fyrr en skurðsárið er vel gróið ( u.þ.b. 2 vikur). Saumar eru teknir 7-10 dögum eftir aðgerð. Þú pantar tíma í saumatöku á þinni heilsugæslustöð.
Vinna: Það er einstaklingsbundið hve fljótt sjúklingar ná sér eftir aðgerðina en flestir geta byrjað að vinna eftir 1-2 vikur. Forðast skal mikla líkamlega áreynslu og ekki skal lyfta þungum hlutum fyrr en sárið er vel gróið og bólgan farin úr því, eftir 1-2 mánuði.
Kynlíf: Þú mátt hafa samfarir þegar þú treystir þér til eftir aðgerðina, nema læknir ráðleggi þér annað.


Hafðu samband við lækni eða deildina ef einhver eftirtalin atriði koma upp:
Merki um sýkingu í skurðsárinu (roði, hiti, bólga, sárið vessar)
Merki um blæðingu (blæðir frá skurðsári, gúll undir sárinu)
Hár hiti sem varir lengur en 3 daga
Miklir verkir og slappleiki


Síminn er 480 5100


Þessar upplýsingar eru engan veginn tæmandi. Það geta orðið ýmis óhjákvæmileg frávik. Hikaðu ekki við að biðja okkur um nánari upplýsingar.
Starfsfólk handlæknissviðs HSu.