Hjólaklúbbur
Þó ekki sé hentugasta árstíð fyrir hjólreiðar er einnigvert að minna á Hjólaklúbb starfsmanna HSu hefur verið starfræktur við Heilbrigðisstofnun Suðurlands yfir sumartímann frá árinu 1993.
Margir hafa tekið þátt í hjólaferðum klúbbsins í gegn um árin og margar skemmtilegar lengri ferðir hafa verið farnar t.d. til Vestmannaeyja, á Suðurnesin, í Fljótshlíð og svo mætti lengi telja. Flestar ferðir hafa verið innanlands en þó hafa verið farnar 3 utanlandsferðir á þessum tíma. Óhætt er að segja að hjólafélagar hafi notið ferðanna og eru þær gjarnan rifjaðar upp á góðum stundum.
Klúbburinn sem kallar sig „þessar hjólvitlausu,“ byrjar að hjóla út í vorið, oftast í byrjun maí og þriðjudagskvöld hafa lengst af verið hinir eiginlegu hjóladagar.
Yfirleitt er farið heldur styttra til að byrja með og svo er vegalengdin smám saman lengd. Reyndar hafa veður og vindar haft töluvert um það að segja hversu langt er farið. Votmúlahringur þykir t.d. góður byrjunarhringur.
Um mitt sumar eða í kring um 20.júlí er svo farið í lengri ferð þar sem gist er eina nótt í sumarhúsi eða gistiheimili og þá er gjarnan slegið upp smá veislu um kvöldið.