Munnheilsa aldraðra

HallaÖldruðum mun fjölga mjög á næstu árum og áratugum og er áætlað að mesta fjölgunin verði í aldurshópnum 85 ára og eldri. Munnheilsa er öllum mikilvæg en lítil áhersla hefur verið lögð á munnheilsu aldraðra. Fólk heldur sínum eigin tönnum lengur en áður og hefur orðið mikil breyting á örfáum áratugum. Margir eru með dýrar viðgerðir í tönnum, krónur, brýr og ígræðslur sem kalla á gott hreinlæti til að viðhalda góðri munnheilsu fram eftir aldri og til að fyrirbyggja vandamál. Heilbrigður munnur á að hafa hreinar tennur með lágmarks tannsýklu. Fyllingar og viðgerðir eiga að vera óskemmdar svo þær valdi ekki skaða á aðliggjandi vefi.  Gómar eiga að vera bleikir og stinnir og slímhúðin í munninum á að vera bleik, mjúk, rök og án sára. Tungan á að vera bleik, með jafnri áferð og án sára. Sár, hvítar eða rauðar skellur í munni sem hafa verið viðvarandi í meira en tvær vikur er óeðlilegt ástand og ætti að fá álit tannlæknis. Með aldrinum verða ýmsar breytingar í munninum. Bragðlaukar rýrna og þeim fækkar og þar með dofnar bragðskyn. Gómar rýrna sem veldur því að gervitennur passa illa og geta sært tannholdið. Tannsýkla sest á gervitennur sem og eigin tennur og getur valdið skaða á aðliggjandi vefi. Þrif á slímhúð í munni og tungu fjarlægir tannsýklu og dregur úr fjölda örvera í kokinu og er mikilvægt að þrífa munnholið, líka hjá þeim sem eru tannlausir. Tannlausir sem nota gervitennur þurfa því líka að huga að munnhreinsun og fara reglulega til tannlæknis. Í munnvatninu er flókin bakteríudrepandi efnasamsetning sem er hluti af ónæmiskerfinu og ver tennurnar og slímhúðina í munninum. Munnvatnsframleiðsla minnkar með aldrinum og getur valdið munnþurrki. Aldraðir glíma margir við fjölþætt heilsufarsleg vandamál og taka oft á tíðum mörg lyf en munnþurrkur er algeng aukaverkun af fjölmörgum lyfjum. Þetta getur valdið margskonar vandamálum, svo sem við að tala og kyngja, sem getur valdið hættu á vannæringu og þyngdartapi en einnig hættu á ásvelgingu og þar með lungnabólgu. Vandamál eins og andremma getur verið afleiðing af þurri slímhúð og er hvimleið. Það getur verið verulega hamlandi fyrir einstaklinginn, til dæmis í samskiptum og þátttöku í ýmsu félagsstarfi. Til að sporna við þurri slímhúð er hægt að örva munnvatnsframleiðsluna með sykurlausu tyggjógúmmí eða molum, fá sér sopa af vatni af og til eða jafnvel nota gervimunnvatn. Ef munnþurrkurinn er kominn til vegna lyfja er gott að endurskoða mikilvægi lyfjagjafarinnar.

Dagleg munnhirða, hollt matarræði og reglulegt eftirlit hjá tannlækni skiptir sköpum við að viðhalda góðri munnheilsu fram eftir aldri.

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Halla Beic Sigurðardóttir,

hjúkrunarfræðingur HSU, Hornafirði.