Mjög erlilssamt á HSU um Verslunarmannahelgina

Mynd GKS

7. ágúst 2019

Verslunarmannhelgin, sem nú er nýliðin, gekk vel í heildina litið hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU). Mikill viðbúnaður var fyrir síðast liðna helgi á HSU og fagfólk vel í stakk búið að takast á við verkefni helgarinnar. Góður undirbúningur skilaði sér vel enda var mikill erill á bráðamóttöku og á sjúkrahúsi, bæði á Selfossi og í Vestmanneyjum. Vel gekk að leysa úr erindum allra sem leituðu til heilbrigðisstarfsmanna á Heilbrigðisstofnun Suðurlands nú um verslunarmannahelgina.

Á bráðamóttöku HSU á Selfossi var mjög mikið að gera alla helgina en gekk mjög vel. Álagið var stigvaxandi eftir því sem leið á helgina.  Mest komu aðilar úr útilegum og úr sumarhúsum í nágrenni Selfoss, en færri komu af útihátíðinni á Flúðum miðað við sama tíma í fyrra. Mikið var leitað til bráðmóttökunnar vegna minniháttar slysa og brota. Eitt alvarlegt slys kom inn á Selfossi eftir að einstaklingur féll af hestbaki og var viðkomandi fluttur á gjörgæslu á Landspítala. 

Fjöldi koma á HSU nú um helgina var síst minni en undanfarin ár bæði á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum og í sjúkratjaldi í Herjólfsdal. Góð samvina var milli allra aðila þar. Mjög góð mönnun var hjá HSU í Vestmannaeyjum og á álagstímum þegar mikill fjöldi einstaklinga leitaði í einu til sjúkrahússins var hægt að bæta tímabundið við fleiri læknum og heilbrigðisstarfsmönnum til að sinna alvarlegri tilfellum. Vitað er um nokkur erfið mál sem komu upp, en fjöldi þeirra mála er enn óljós, þar sem verið er að safna upplýsingum saman.  Tveir voru sendir með sjúkraflugi vegna líkamsárasar í Vestmannaeyjum. Annars gekk helgin að mestu stóráfallalaust en töluvert var um lítilsháttar tognanir, sár og minniháttar slys. 

Verkefni sjúkraflutninga á Suðurlandi gengu mjög vel um verslunarmannahelgina á öllum starfstöðvum, á Selfossi, í Rangárþingi, í Vestmannaeyjum, í Vík í Mýrdal, á Kirkjubæjarklaustri og á Höfn í Hornafirði. Eitt alvarlegt slys átti sér stað um helgina. Minna var um útköll vegna útihátíða nú í ár en oft áður. Í gær urðu hins vega tvö stór umferðarslys þar sem kalla þurfti út töluverðan mannafla sjúkraflutningafólks. Eitt umferðarslys var í gær í Þjórsárdal og annað 9 manna bílslys við Hala í Suðursveit.  Betur fór en á horfðist í fyrstu í báðum tilfellum.

Ljóst er að allir hafa lagt sig vel fram um að láta helgina ganga sem best upp og þökkum við á HSU samstarfsaðilum okkar á Suðurlandi gott og faglegt samstarf, sem endra nær.

 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.