Mislingafaraldur í Evrópu – MMR bólusetning

Eins og fram hefur komið fréttum,  þá hefur talsvert verið rætt undanfarið um mislingafaraldurinn í Evrópu á þessu ári (og reyndar á síðasta ári einnig). Um 30.000 einstaklingar hafa greinst í Evrópu með mislinga á árinu 2011, tæplega 90% þeirra óbólusettir og flestir yngri en 10 ára.

Átta einstaklingar hafa látist, um 30 fengið alvarlega heilabólgu og tæplega eitt þúsund alvarlega lungnabólgu.

Mislingar hafa greinst í öllum löndum Evrópu á árinu nema á Íslandi, Ungverjalandi og Kýpur.

Samantekt úr bólusetningagrunni um þátttökuna í MMR bólusetningu hér á landi og hefur hún verið 90-95% síðustu árin.

Það er ástæða til að hafa áhyggjur af þátttökunni hér á landi þar sem að hún þarf að vera a.m.k. 90% til að koma í veg fyrir að mislingar blossi hér upp.

Á næstunni munu verða teknir út einstaklingar síðustu ára, sem ekki hafa verið bólusettir með MMR samkvæmt bólusetningagrunni og nöfn þessara einstaklinga send til viðeigandi heilsugæslusvæða til nánari athugunar.