Minnum á Bangsspítalann á HSu þann 2. nóv. n.k.

Bangsaspítali 2012Bangsaspítalinn verður á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi laugardaginn 2. nóvember frá kl 14-18.

 

Þetta er í þriðja sinn sem Bangsaspítalinn kemur á HSu og er það Selfyssingurinn, Guðrún Katrín Oddsdóttir, formaður Lýðheilsufélags læknanema, sem á heiðurinn af því.

 

Börn á aldrinum 3-6 ára eru velkomin og systkini líka, og verður tekið á móti veikum og slösuðum böngsum, dúkkum eða öðrum mjúkdýrum.

 

Þetta fer þannig fram að börnin fara í hlutverk bangsaforeldra. Þau koma í viðtal og kynna fyrir bangsalæknum hvað amar að. Svo er bangsinn skoðaður og unnið að því í sameiningu að koma böngsunum til heilsu, hvort sem setja þarf á þá plástur, taka röntgenmynd eða hvað annað sem komið getur upp.

 

Markmið Bangsaspítalans er að stuðla að jákvæðu viðhorfi barna og trausti gagnvart heilbrigðisstarfsfólki, heilbrigðisstofnunum og því starfi sem þar á sér stað. „Læknar með sínar nálastungur og önnur „leiðindi“ geta verið ógnvekjandi í augum barna og því er þetta frábær leið fyrir þau að kynnast starfinu á sjúkrahúsum án þess að vera hrædd. Það dregur úr öryggisleysi þeirra og sýnir að heimsókn á sjúkrahús þarf ekki að vera leiðinleg og getur jafnvel verið nokkuð skemmtileg. Sérstaklega er þetta gott fyrir börn sem hafa sjálf lent í því að þurfa leita á sjúkrahús, þau fara yfirleitt út skælbrosandi.“

 

Hugmyndin að Bangsaspítalanum kemur frá Kanada og hefur slegið í gegn í mörgum löndum. Frá árinu 2001 hefur það verið sett upp árlega á sjúkrahúsum á Englandi. Lýðheilsufélag læknanema hefur séð um verkefnið hér á landi og eru það 1. árs læknanemar sem sinna hlutverki bangsalækna.

 

Guðrún Katrín segir að þetta sé ekki aðeins gagnlegt fyrir börnin heldur einnig læknanemana. „Þetta er mikil og góð samskiptaæfing fyrir þá. Þeir eru að taka fyrstu skrefin í náminu og það sem við sem læknar þurfum að geta gert er að tala við fólk. Börnin eru alveg frábær til að æfa sig á því þau eru svo opin og skemmtileg – og til í allt.