Minnistruflanir – Alzheimer

Alzheimer er hugtak sem við þekkjum flest og höfum ákveðnar hugmyndir um hvað er. Það var árið 1906 að Alois Alzheimer lýsti sjúkdómsmyndinni fyrst í vísindagrein en nokkrum árum síðar var sjúkdómurinn kenndur við hann.

Alzheimer er ágengur sjúkdómur í heila sem veldur dauða taugafrumna og þannig rýrnun á heila. Hann er frekar hæggengur og getur þróast á mörgum árum. Fyrstu árin ber ekki á neinu en þegar á líður koma fram óljós einkenni svo sem vaxandi gleymska, að vera óvenjulega utan við sig, að eiga stöku sinnum í vandræðum með að finna orð eða að einstaklingur ruglist aðeins í flóknum verkefnum. Þetta getur átt sér fjölmargar ástæður og allir upplifa slíkt á einhverjum tíma. Verði þetta viðvarandi ástand er full ástæða til að skoða það nánar. Á fyrstu stigum sjúkdómsins er oftast um litla skerðingu á vitrænni getu að ræða og er þróunin að jafnaði sú að sjúklingurinn er hægt og sígandi rændur getu til sjálfsumönnunar og þarf því að treysta á aðstandendur sína og eða á heilbrigðiskerfið. Langflestir þurfa á einhverjum tímapunkti á heilbrigðiskerfinu að halda og eyða jafnvel síðasta ævikvöldinu innan veggja stofnana vegna þess að ástand sjúklingsins er orðið þannig að hann þarf eftirlit og aðstoð við allar athafnir daglegs lífs og umönnun allan sólarhringinn.

Ef grunsemdir vakna um að einstaklingur sé haldinn Alzheimer liggur beinast við að leita fyrst til heimilislæknis sem getur gert hluta af viðeigandi rannsóknum, eða vísað áfram til sérfræðinga hjá Minnismóttökunni á Landakoti þar sem fram fer þverfagleg teymisvinna öldrunarlækna, hjúkrunarfræðinga, félagsráðgjafa, sálfræðinga og fleiri fagaðila.

Lækning við sjúkdómnum er enn ekki fundin, vegna þess að orsök hans er ekki að fullu ljós, en til eru lyf sem virðast hægja á framgangi hans og halda niðri ýmsum einkennum.

Frekari upplýsingar er hægt að nálgast á vefsíðum eins og:

http://www.alzheimer.is

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Guðrún María Þorsteinsdóttir

Hjúkrunarfræðingur sjúkradeild HSU í Vestmannaeyjum