Minnisblað um áhrif á þjónustu HSu og afleiðingar.


Í heilbrigðisþjónustu þarf að skera niður um 4,7 milljarða kr.


Heilbrigðisráðuneytið forgangsraðar niðurskurðinum þannig, að hlífa skuli heilsugæslu og stóru sjúkrahúsunum í R.vík og Akureyri, ásamt Akranesi. Niðurskurðurinn verði hins vegar harkalegur á sjúkrahúsum annarra heilbrigðisstofnana víðst vegar um landið eða um 3 milljarðar kr. Þær stofnanir eru hins vegar með innan við 10 % af heildarfjárveitingu til sjúkrahús- og sérfræðiþjónustu og því verður niðurskurðurinn mjög mikill hjá þeim.


 

Tillögur heilbrigðisráðuneytis um samdrátt á sjúkrasviðum eru byggðar á því, að í hverju heilbrigðisumdæmi verði mætt þörf fyrir legurými á lyflækningadeildum. Tillögurnar gera ráð fyrir, að á HSu verði nánast óbreyttur rúmafjöldi eða 30 rúm. Á öllum öðrum sjúkrahúsum heilbrigðisstofnana er gert ráð fyrir fækkun rúma. Fjárveiting á hvert rúm, kr. 38.856 á sólarhring, er hins vegar svo lág, að ekki er hægt að starfrækja 30 rúma lyflækningadeild fyrir þá fjárhæð.


Ef fjárveiting á rúm væri hin sama og ætluð er fyrir Vesturland yrði fjárveiting til sjúkrahúss HSu um 752 m.kr. í stað 730 m.kr. á þessu ári. Skýringu þarf að fá á þessum mismun í kostnaði við lyflæknisþjónustu og einnig hvers vegna gjald á rúm í Stykkishólmi eigi að vera kr. 56.274.


Fjárveiting til sjúkrashúss HSu lækkar skv. frumvarpi til fjárlaga um 412 m.kr., eða um 56,5 % af fjárveitingunni, sem í ár er 730 m.kr. Þessi lækkun samsvarar nánast þeirri upphæð, sem varið er í beina læknis- og hjúkrunarþjónustu við sjúklinga á sjúkrahúsinu. Þjónustunni fylgir síðan ýmis óbein þjónusta eins og rannsóknir, röntgen, fæði, ræsting, þvottur, tækni- og viðhaldsþjónusta skrifstofuþjónusta. Þessi stoðþjónusta er sameiginleg fyrir sjúkrahúsið, heilsugæsu og hjúkrunardeildir aldraðra.


Stefna ráðuneytisins um, að í hverju umdæmi verði almenn sjúkrahúsþjónusta með almennum lyflækningum og grunnheilbrigðisþjónustu, sem lög um heilbrigðisþjónustu kveða á um, nær því ekki fram að ganga skv. þessum tillögum. HSu er eingöngu að veita grunnheilbrigðisþjónustu skv. lögum. HSu er ekki að veita neina sérhæfða þjónustu, sem ætti að vera á LSH. Um slíka þjónustu er gott samstarf milli HSu og LSH.


Afleiðing þessarar lækkunar verður i stórum dráttum sú, að núverandi þjónusta sjúkrahússins sem almenns sjúkrahúss leggst af. Þar er nú pláss fyrir 31 sjúkling á lyflækninga-, handlækninga-, fæðinga- og kvensjúkdómadeild. Auk þess er þar veitt ýmis sérfræðiþjónusta í göngudeildar- og dagdeildarþjónustu.


LSH verður því umdæmissjúkrahús Sunnlendinga og tekur við eftirgreindri almennri sjúkrahúsþjónustu:


Öllum deyjandi sjúklingum


Krabbameinssjúklingum


Öllum almennum lyflæknissjúklingum


Öllum einstaklingum sem eru vistunarmetnir og geta ekki verið heima lengur


Bæklunarsjúklingar frá LSH verða alla leguna á LSH


Öllum sýkingum sem þurfa innlögn


Öllum fæðingum


Öllum heimsóknum í aðdraganda fæðingar


Göngu- og dagdeildarþjónusta sérfræðilækna flyst á læknastofur á höfuðborgarsvæðinu.


Þjónusta sjúkrahússins sem bakhjarl fyrir heimahjúkrun og slysa- og bráðaþjónustu hverfur.


Í framhaldinu þarf síðan ef að líkum lætur að hækka fjárveitingar til LSH og Sjúkratrygginga Íslands til að geta staðið undir aukinni þjónustu í Reykjavík. Þessir aðilar fá nú um 85 % af fjárveitingum til sjúkrahús- og sérfræðiþjónustu. Enn verður því aukið á misréttið milli landshluta.


Vinnubrögðin við þessa stefnumörkun eru sérstaklega ámælisverð þar sem ekkert samráð hefur verið haft við þessar heilbrigðisstofnanir um framkvæmd eða afleiðingar þessarar miklu lækkunar. Sjúkrahús- og sérfræðiþjónusta Sjúkrahúss Suðurlands flyst að mestu leyti á LSH og læknastofur í Reykjavík með tilheyrandi kostnaði og óþægindum fyrir íbúa og aðstandendur þeirra. Stöðugir sjúkraflutningar verða í gangi með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkið.


Sjúkrahúsin eru með stærstu vinnustöðum í viðkomandi byggðarlögum. Við blasir að segja þurfi 60 – 70 starfsmönnum á Sjúkrahúsi Suðurlands með tilheyrandi kostnaði ríkisins vegna biðlauna og atvinnuleysisbóta í kjölfarið. Taka þarf tillit til þess kostnaðar, aukinna sjúkraflutninga og væntanlegra aukafjárveitinga til LSH og Sjúkratrygginga Íslands til að geta sinnt þessari þjónustu í R.vík þegar heildarkostnaður vegna þessara breytinga er metinn.


19. október 2010,


Magnús Skúlason, forstjóri