Mikilvægt að taka lýsi eða annan D-vítamíngjafa

Upplýsingar um D-vítamín.

D-vítamín hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu. Hér á norðlægum slóðum, þar sem sólar nýtur lítið við, sérstaklega yfir veturinn, er þörfin fyrir D-vítamín úr fæðu eða fæðubótarefnum meiri en í suðlægari löndum. Rannsóknir hafa sýnt að Íslendingar fá of lítið af D-vítamíni úr fæðunni og að styrkur D-vítamíns í blóði þeirra sem hvorki taka lýsi né önnur fæðubótarefni er töluvert undir viðmiðunar-mörkum. Skortur á D-vítamíni getur valdið beinkröm, en einnig eru vísbendingar um að vítamínið geti haft almenn og jákvæð áhrif á heilsu fólks. Af þessum sökum minnir Embætti landlæknis á mikilvægi þess að foreldrar tryggi að börnum séu gefnir D-vítamíndropar, lýsi eða annar D-vítamíngjafi, annað hvort heima eða í dagvistun, leik- eða grunnskóla.

Ráðlagður dagskammtur

Ráðlagður dagskammtur (RDS) af D-vítamíni er 10 míkrógrömm (400 AE) á dag fyrir alla frá 4 vikna aldri og að 60 ára. Ráðlagður dagsskammtur fyrir þá sem eru 61 árs og eldri er 15 míkrógrömm á dag (600 AE). Á Norðurlöndum er nú unnið að endurskoðun næringarráðlegginga, þar með talið RDS fyrir D-vítamín og verða niðurstöður kynntar um mitt næsta ár.

Hvernig færðu 10 míkrógrömm af D-vítamíni?

Samkvæmt rannsóknum á næringu ungbarna fá einungis 50-60% íslenskra ungbarna lýsi eða D-vítamíndropa. Ráðlagt er að gefa börnum D-vítamíndropa frá fjögurra vikna aldri og lýsi eftir að barnið er farið að fá fasta fæðu. Hver dropi af D-vítamíndropum inniheldur 2 míkrógrömm af vítamíninu og því þarf 5 dropa fyrir ungbörn. Ein teskeið (5 ml) af krakkalýsi eða þorskalýsi veitir 9,2 míkrógrömm af D-vítamíni. Hér þarf að hafa í huga að venjuleg heimilisteskeið getur verið minni en 5 ml. Einnig er ráðlagt að gefa þeim börnum sem fá þurrmjólk annaðhvort D-vítamíndropa eða lýsi aukalega. Mikilvægt er að gefa börnum lýsi eða annan D-vítamíngjafa til að tryggja að þau fái ráðlagðan dagskammt.