Mikilvægi D-vítamíns fyrir heilsu

SolrunD-vítamín er eitt af mikilvægum lífefnum líkamans, hormón sem myndast í húðinni með hjálp frá geislum sólarinnar. Líkaminn geymir vítamínið í lifrinni en líka í fituvef og vöðvum. Á Íslandi njótum við lítillar sólar á veturna og þá er mikilvægt að muna að bæta vítamíninu við fæðuinntöku.

D vítamín styrkir beinin, stýrir kalkbúskapnum, minnkar líkur á beinþynningu og dregur úr líkum á slæmum afleiðingum tengdum byltum. Skortur af D vítamíni getur valdið sjúkdómnum beinkröm hjá börnum.

En D vítamín er ekki bara nauðsynlegt fyrir beinin. Það spornar gegn sjúkdómum, ýmsum vöðva og taugasjúkdómum og er m.a. fyrirbyggjandi gegn þunglyndi, vöðvaverkjum, slappleika og sleni. D vítamín virkar styrkjandi á hjarta, æða og ónæmiskerfi og minnkar líkur á sjálfsofnæmissjúkdómum og sýkingum, t.d. kvefi, flensum og eyrnabólgum. Vísbendingar er um  að lélegur D-vítamínbúskapur tengist einhverjum tegundum krabbameina.

Erfitt getur verið að ná ráðlögðum dagskammti úr fæðunni einni saman. Vítamínið finnst í feitum fiski, náttúrulegri uppsprettu D vítamíns, sem einnig er ríkt af styrkjandi omega fitusýrum. Sama gildir um Lýsi. D-vítamíni er bætt í ýmsar fæðutegundir okkar t.d. fjörmjólk, stoðmjólk, D vítamín bætta léttmjólk, smjörlíki og einhverjar tegundir af jurtaolíum. Ráðlagt er að bæta því inn umfram fæðu, í formi fæðubótaefna, með D vítamínpillum eða með inntöku á Lýsi.

D-vítamín er fituleysanlegt vítamín og safnast því upp í líkamanum. Þess vegna eru gefin út viðmið um efri mörk. Skammta umfram efri mörk ætti aðeins að taka í samráði við lækni. Foreldrum er sérstakleg bent á að gefa ekki ungbörnum lýsi og D-vítamíndropa samtímis vegna hættu á D-vítamín eitrun.

Ráðlagðir dagskammtar (RDS) af D – Vítamíni fyrir börn eldri en 10 ára og fullorðna er 15 μg en 20 μg fyrir eldra fólk frá 71 árs aldri. Efri mörk eru 100 μg.

Fyrir börn undir 10 ára er ráðlagður dagskammtur 10 μg. Efri mörk fyrir börn eru 50 μg en 25 μg fyrir börn yngri en eins árs. Frá 1–2 vikna aldri er ráðlagt að gefa ungbörnum D-vítamíndropa (10 μg/dag).

Heimildir: landlaeknir.is, laeknabladid.is, heilsugaeslan.is, landspitali.is

 

f.h Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

 

Sólrún Auðbertsdóttir

Hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar í Þorlákshöfn