Margir veikir og stórslasaðir bangsar voru læknaðir á Bangsaspítala HSu

Það reyndust margir bangsar vera stórslasaðir og veikir sem komu á Bangsaspítala HSu á Selfossi laugardaginn 5. nóv.  Um 115 bangsar voru læknaðir þennann dag.

Verkur í munni og maga, beinbrot, jafnvel á öllum útlimum og nokkrir bangsanna voru búnir að gráta soldið. Þó nokkuð margir höfðu slasast við það að detta og ótrúlega margir úr rúmunum sínum.  Einn var þó verst útleikinn, en hann hafði verið bitinn illa af dreka, „við voðum að labba í þkóginum og þá kom appelþínuguluð dðeki með voða beittað tennuð og beit bangþann minn!“

 En allir fóru bangsarnir glaðir heim, flestir með plástra eða enn stærri umbúðir og einhverjir höfðu þurft sprautu en öllum var batnað.  Börnin fengu verðlaun að heimsókn lokinni.

Aðsókn fór fram úr öllum væntingum og var nóg að gera hjá Læknanemunum sem tóku á móti börnunum með bangsana eða dúkkurnar sínar.  Gott framtaka hjá Lýðheilsufélagi læknanema.