Mánudagspistill forstjóra

23. janúar 2017

 

Nú í lok síðustu viku skilaði framkvæmdastjórn HSU rekstraráætlun stofnunarinnar til Velferðarráðuneytisins. Áður hafði áætlun verið skilað í desemberlok. Frá því þá hefur komið viðbót inn í rekstrargrunn ársins 2017 til HSU um 145 millj. kr. aukning frá fyrri áætlanagerð.  Viðbótin er einkum hugsuð til að styrkja rekstrargrunninn og sérstök verkefni eins og heimahjúkrun, göngudeild og sjúkraflutninga. Þetta var samþykkt eftir að nýtt þing kom saman á Alþingi nú í lok síðasta árs.  Áætlunin hjá okkur hefur því verið endurskoðuð með hliðsjón af þessari viðbótarupphæð í góðri samvinnu við ráðuneytið.

 

Áætlunin er nú sett upp miðað við kjarnastarfsemi HSU fyrir grunnheilbrigðisþjónustu á Suðurlandi og sérhæfð verkefni er stofnunin hefur sinnt í heilbrigðisumdæminu. Lögð var áhersla á að við gerð þessarar áætlunar að leggja til grundvallar raunhæf gögn út frá tölum síðasta árs, eftir þær hagræðingaraðgerðir sem Velferðarráðuneytið samþykkti um mitt síðasta ár í rekstri og mönnun hjá HSU. Miðað við núverandi forsendur í rekstri HSU, ásamt hagræðingaraðgerðum ársins, nær stofnunin að vera innan ramma sem settur er í fjárlagafrumvarpi ársins 2017. Rekstraráætlun ársins 2017 hefur því nú skilað með um 1,5 millj. kr. afgang og bíður samþykktar í ráðuneytinu. Þá er ótalið um 90-100 millj. kr. sem nauðsynlega þarf til tækja- og eignakaupa, en sá málaflokkur hefur verið fjársveltur undanfarinn áratug og mikil uppsöfnuð þörf fyrir endurnýjun tækja og búnaðar.  Miðað við heildarfjármagn til stofnunarinnar vantar því lítið upp á til að HSU geti með sóma annast lögbundin verkefni á sviði grunnheilbrigðisþjónustu í umdæmi Suðurlands.

 

Þess ber þó að geta að í fjárlögum er í fyrsta sinn gert ráð fyrir raunvexti í rekstri innan heilsugæslu-, sjúkrasviðs og hjúkrunarrýma hjá stofnuninni sem nemur 1% á hverju sviði fyrir sig eða alls um 37 millj. kr. en þó dragast frá því 8 millj. kr. í aðhald vegna útgjaldaramma ráðuneytis á sjúkrasviði HSU. Þessi fjárlagaliður sem gerir ráð fyrir raunvexti í starfseminni gefur vissulega tækifæri til að leggja mat á aukið álag í umfangi starfseminnar. Raunaukning er þó nær því að vera milli ára um 2,5% í heilsugæslu og upp í 10% bæði í komum á bráðamóttöku og utanspítalaþjónustu HSU sem er fyrir alla sjúkraflutninga á Suðurlandi. Þess ber einnig að geta að í umdæmi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands eru rekin tvö umdæmissjúkrahús með dag- og göngudeild, lyflækningadeildum og skurðstofum með valaðgerðum. Eins og við þekkjum þá hefur á undaförnum árum lögbundin starfsemi HSU vaxið langt umfram það sem hægt hefur verið að áætla fyrir. 

 

Það liggur þó fyrir að við þurfum áfram að sameinast um að vinna í áframhaldandi aðhalds- og hagræðingaraðgerðum, enda viðvarandi verkefni hjá framkvæmdastjórn HSU að endurskoða greiðslufyrirkomulag, skipulag og samstarf til að auka skilvirkni og gæði þjónustunnar.

 

Við boðum til opins starfsmannafundar, á morgun í Vestmannaeyjum og næsta mánudag á Selfossi, þar sem ég hlakka til að eiga samtal með ykkur og kynna hvað er framundan næstu mánuði.

 

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

Kær kveðja,

 

Herdís Gunnarsdóttir

Forstjóri HSU