18. apríl 2016
Í Vestmannaeyjum og á Selfossi er tekið við hópi sjúklinga frá Landspítala í hverri viku, sem hafa tök á að dvelja á spítala í heimabyggð að lokinni meðferð eða aðgerð á Landspítala. Við erum í góðri aðstöðu á báðum þessum stöðum með hæft starfsfólk til að taka á móti slíkum hópi sjúklinga. Sem dæmi má nefna að á lyflækningdeildinni á Selfossi hafa um 45% sjúklinga er dvelja þar, á þessu ári, komið frá Landspítala, flestir vegna bæklunar- eða liðskiptaaðgerða. Þess ber að geta að ég hef heyrt frá dagdeild skurðlækninga á Landspítala að mikil ánægja ríkir með hversu greiðlega hefur gengið að senda sjúklinga til HSU.
Í síðasta pistili nefndi ég að gífurleg fjölgun verkefna hefur átt sér stað hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Nýlega er komin út skýrsla um sjúkraflutninga á Suðurlandi. Enn heldur fjöldi sjúkraflutninga áfram að aukast, en fyrstu 3 mánuði þessa árs hefur fjöldi þeirra aukist um 17% frá því á sama tíma í fyrra. Einnig er algjör sprenging í komum á bráðamóttöku á Selfossi, en 528 fleiri sjúklingar komu á bráðamóttökuna á fyrstu þremur mánuðum þessa árs en á sama tíma í fyrra. Það jafngildir 25% aukningu á bráðamóttökunni.
Ljóst er að við þvílíkri aukningu í starfsemi HSU þarf að bregðast. Framkvæmdastjórn hefur nú fundað með ýmsum stjórnendum á HSU og leitar allra leiða til að bregðast við ástandinu en tryggja um leið gæði þjónustunnar. Það er viðvarandi verkefni stjórnenda að hagræða í rekstri og nú er unnið að því að velta við hverjum steini í rekstrinum. Við getum alltaf endurskipulagt störf okkar og gert enn betur. Starfsfólk HSU á heiður skilið fyrir að taka að sér sívaxandi verkefni og ljóst er að álag hefur aukist mikið á öllum sviðum þjónustunnar, en þó sér í lagi í bráða- og utanspítalaþjónustunni hjá okkur.
Það er hins vegar augljóst að verðlagshækkanir ofan á föst fjárframlög duga ekki sem mælistika á vöxt verkefna í heilbrigðisþjónustu. Vonir standa til að fjármögnun verkefna í heilbrigðisþjónustunni muni breytast en þangað til lítur út fyrir að grípa þurfi til niðuskurðaraðgerða meðan ekki fæst fjármagn samhliða vexti í afköstum og þjónustu. Þá hafa einnig orðið gífurlegar launahækkanir á síðasta ári og hefur kostnaðarmat á þeim ekki skilað sér að fullu í formi fjárframlaga til stofnanna.
Ég tel gífurlega mikilvægt að kynna vel fyrir öllum samstarfsmönnum þær aðgerðir og breytingar sem eru framundan hjá okkur á HSU vegna vaxandi verkefna. Óumflýjanlegt er að grípa til aðgerða ef ekki fæst aukið fjármagn samhliða vaxandi verkefnum. Í öllum slíkum breytingum er mikilvægt að standa vörð um grunnþjónustuna. Áætlaðir starfsmannafundir verða auglýstir fljótlega og verða haldnir á Selfossi og í Vestmannaeyjum í næstu viku.
Með góðri kveðju,
Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.