Málþing um heilbrigðisþjónustu

Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu) og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) halda í dag málþing um heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi á Hótel Selfossi.
Markmið málþingsins er að leiða fram skoðanir og upplýsingar um stöðu og framtíð heilbrigðisþjónustunnar á Suðurlandi, sem gætu nýst við stefnumörkun heimamanna og stjórnvalda.

Á þinginu verða flutt fjölmörg erindi, m.a. um stefnumótun HSu. Sjónarmið neytenda, sveitarstjórnarmanna og þingmanna munu koma fram Einnig tengsl heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu sveitarfélaga.
Þá verður einnig fjallað um geðheilbrigðisþjónustu á Suðurlandi og þjónustu við aldraða.


Þá mun Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra opna nýja heimasíðu HSu og jafnframt verður kynnt nýtt merki stofnunarinnar .


Að loknum erindum verða pallborðsumræður sem Bjarni Harðarson, ritstjóri mun stjórna.
Fundarstjóri er Helga Þorbergsdóttir, hjúkrunarforstjóri Vík.


Þátttakendur á málþinginu verða : Heilbrigðisráðherra og fulltrúar ráðuneytis, þingmenn Suðurkjördæmis, sveitarstjórnarmenn, forsvarsmenn heilbrigðisstofnana, fulltrúar starfsstétta á heilbrigðisstofnunum, embættismenn sveitarfélaga og áhugafólk. Allir eru velkomnir á málþingið.
Málþingið stendur frá kl. 09:30 –16:00 Aðgangur er kr.2000 og er hádegisverður innifalinn.