Lömunarveiki (polio) greinist í Úkraínu

Lömunarveikib.Á undanförnum mánuðum hafa greinst tvö tilfelli af lömunarveiki í Úkraínu. Um er að ræða sýkingu af völdum lömunarveikiveiru sem er í bóluefninu sem þar er notað. Í Úkraínu hefur verið notað bóluefni gegn lömunarveiki sem inniheldur lifandi en veiklaðar veirur. Í sjaldgæfum tilfellum geta þessar veirur breytt sér og valdið lömunarveiki hjá óbólusettum einstaklingum.

Í Úkraínu hefur þátttaka í bólusetningu gegn lömunarveiki verið slök og þannig geta veirur úr bóluefninu borist í óbólusetta einstaklinga og í sjaldgæfum tilfellum valdið lömunarveiki.

Á Íslandi hefur hins vegar aldrei verið notað bóluefni gegn lömunarveiki sem inniheldur veiklaðar veirur. Einungis hefur verið notað bóluefni sem inniheldur dauðar veirur sem ekki valda sýkingu.

Litlar líkur eru á að lömunarveiki berist til Íslands frá Úkraínu en einstaklingar sem hyggja á ferðir til Úkraínu eru beðnir um að láta bólusetja sig áður en farið er af stað hafi þeir ekki verið bólusettir á sl. 10 árum. Á Íslandi er bólusett gegn lömunarveiki við 3, 5 og 12 mánaða aldur og örvunarbólusetning gefin við 14 ára aldur.

Þátttaka á Íslandi í bólusetningu gegn lömunarveiki hefur verið góð eða um 95%.

 

(frétt af vef Embættis landlæknis)