Líknardeild á HSU

Hinn 4. september 2020 veitti heilbrigðisráðherra Heilbrigðisstofnun Suðurlands varanlegt fjármagn til reksturs fjögurra nýrra líknarrýma til viðbótar þeim 18 sjúkrarýmum sem fyrir eru við lyflækningadeildina á Selfossi. Þessi ákvörðun var í samræmi við tillögur starfshóps um framtíðarskipan líknarþjónustu á Íslandi og veitingu almennrar líknarmeðferðar fyrir íbúa umdæmisins sem þess þurfa með.

 

Í líknarrými leggjast sjúklingar með sjúkdóma á lokastigi sem metið er að eigi innan við sex mánuði eftir ólifaða og hafa þjónustuþarfir umfram það sem mögulegt er að veita með sérhæfðri heimahjúkrun.

 

Í þessari ráðstöfun Heilbrigðisráðuneytisins fólst veruleg viðurkenning á störfum okkar hér á HSU. Í niðurlagi bréfs ráðuneytisins segir: „Heilbrigðisráðuneytið fagnar áhuga Heilsbrigðisstofnunar Suðurlands um að bæta þjónustu á þessu sviði og er stofnunin að mati ráðuneytisins vel í stakk búin faglega til að koma á fót og reka líknarrými á Selfossi. Þar er til staðar áhugi og grunnþekking til að sinna almennri líknarmeðferð með faglegum hætti. Stofnunin hefur m.a. markvisst verið að efla sinn hluti í þjónustu við krabbbameinsveika með eflingu göngudeildarþjónustu og verða líknarrýmin eðlilegt framhald af þeirri þróun.“

 

 

Sigurður Böðvarsson,

framkvæmdastjóri sjúkrahússviðs og framkvæmdastjóri lækninga