Líknar konur gefa CT tæki til Vestmannaeyja

„Herdís Gunnarsdóttir forstjóri HSU tekur við CT tækinu að gjöf frá Ásdísi Loftsdóttur formanni Líknar.  Með þeim á myndinni er Ágústa Hulda Árnadóttir fráfarandi formaður Líknar“

Herdís Gunnarsdóttir forstjóri HSU tekur við CT tækinu að gjöf frá Ásdísi Loftsdóttur formanni Líknar. Með þeim á myndinni er Ágústa Hulda Árnadóttir fráfarandi formaður Líknar

Þann síðasta vetrardag, 22. apríl sl., afhentu Líknar konur í Vestmannaeyjum HSU nýtt CT tæki að gjöf. Kvenfélagið Líkn hefur starfað í rúm 105 ár eða frá árinu 1909 og hefur með margvíslegum hætti stutt við starfsemi Heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmanneyjum í gegnum árin.

 

Eldra tölvusneiðmyndtæki á HSU í Vestmannaeyjum hefur verið ónothæft frá því haustið 2013. Í janúar 2015 ákvað forstjóri HSU ásamt framkvæmdastjórn að gengið yrði til kaupa á nýju tölvusneiðmyndatæki fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum, í samvinnu við stjórnarkonur í kvenfélaginu Líkn í Vestmannaeyjum. Það gekk framar vonum að panta nýtt tæki sem var sett upp og tekið í notkun nú í apríl. Líknar konur hafa af mikilli framsýni, eljusemi og stórhug náð að safna tæplega 40 milljónum króna, sem var kaupverð tækisins.

 

Herdís Gunnarsdóttir forstjóri veitti nýju tæki viðtöku úr hendi Ásdísar Loftsdóttur formanns kvenfélagsins Líknar. Gjöfinni fylgir sú kvöð að Heilbrigðisstofnun Suðurlands ábyrgist rekstur tækisins og að þekking sé til staðar til að nota það íbúum Vestmannaeyja til hagsbóta og eigi megi fjarlægja tækið af staðnum nema að fengnu samþykki Líknar kvenna. Forstjóri tók við gjöfinni og þakkaði þann myndarskap og þrautseigju sem líknarkonur hafa sýnt. Hjörtur Kristjánsson framkvæmdastjóri lækninga þakkaði einnig fyrir gjöfina. Nýja tölvusneiðmyndatækið mun nýtast afar vel til rannsókna við bráð veikindi og koma í veg fyrir óþarfa flutning sjúklinga til rannsókna og flýta fyrir greiningu og úrlausn í veikindum einstaklinga í Vestmannaeyjum. Nýja tækið er mun fullkomnara en eldra tæki og er tími myndgreiningarrannsókna með tækinu mun styttri en áður og eins skilar tækið þrefalt minni geislun út í umhverfið.

 

Fyrir hönd Heilbrigðisstofnunar Suðurlands er Líknar konum færðar hugheilar þakkir fyrir ómetanlega gjöf.

 

Herdís Gunnarsdóttir,

forstjóri, HSU.