Leiðir til að efla heilsugæsluna

Lagt er til að námsstöðum í heimilislæknum verði fjölgað, tekin verði upp sveigjanleg tilvísanaskylda og forsendur skoðaðar fyrir flutningi verkefna heilsugæslu til sveitarfélaga. Þessar tillögur og fleiri eru settar fram í skýrslu um leiðir til að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu.
Þann 2. mars 2010 skipaði þáverandi heilbrigðisráðherra, Álfheiður Ingadóttir, nefnd sem falið var að gera tillögur um leiðir til að efla stöðu heilsugæslunnar og tryggja landsmönnum sem mest jafnræði á sviði heilbrigðisþjónustu. Nefndin skyldi fjalla um innihald og umfang heilsugæslu sem fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar. Ráðherra óskaði sérstaklega eftir tillögum um hvernig megi innleiða tilvísunarskyldu í heilbrigðisþjónustu en einnig um önnur atriði sem tengjast heilsugæslu, svo sem forvarnir, fræðslu, kennslu, heilsugæslu í skólum, barnalækningar, tannvernd, tannlæknaþjónustu og læknavaktina. Guðbjartur Hannesson tók við starfi heilbrigðisráðherra 2. september 2010 og staðfesti hann umboð nefndarinnar til að ljúka störfum í samræmi við skipunarbréf sitt.

Nefndin leggur fram tíu tillögur um leiðir til að efla heilsugæsluna sem hún telur að hrinda megi í framkvæmd á næstu misserum. Eftirfarandi er samantekt á tillögunum:

Tuttugu læknar verði teknir inn í sérnám í heimilislækningum ár hvert á næstu fimm árum. Nefndin telur að fjölgun á námsstöðum í heimilislækningum sé ein áhrifaríkasta leiðin til að draga úr læknaskorti og styrkja heilsugæsluna. Nefndin leggur einnig til að fjárhagslegt bolmagn og sjálfstæði sérnáms í heimilislækningum verði aukið og að sérnámið verði stytt og miðist frekar við marklýsingu en tiltekinn árafjölda eftir því sem það er mögulegt.


Settar verði verklagsreglur til að stýra flæði sjúklinga frá einu þjónustustigi til annars og tryggja þannig samfellu í meðferð sjúklinga. Fólk leiti þá jafnan fyrst til heilsugæslunnar vegna heilsufarsvandamála sinna en jafnframt liggi fyrir reglur og verkferlar um hvert vísa skuli sjúklingum ef heilsugæslan getur ekki leyst úr vanda þeirra. Í verklagsreglum er mögulegt að skilgreina innra starf, teymisvinnu og samskipti við aðrar stofnanir og þætti heilbrigðiskerfisins. Nefndin leggur einnig til að á næstu þremur árum verði undirbúin innleiðing á sveigjanlegri tilvísanaskyldu en það er ein þeirra aðferða sem beitt er til þess að stuðla að skilvirkri verkaskiptingu í heilbrigðiskerfinu.


Lagt er til að skoðaðar verði forsendur fyrir flutningi verkefna heilsugæslu til sveitarfélaganna innan næstu fimm ára. Einnig að heilsuverndarstarf verði eflt á landsvísu með áherslu á forvarnir, heilsuvernd og fræðslu til að fyrirbyggja sjúkdóma og stuðla að heilbrigðum lífsháttum. Þá er lagt til að Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins verði falin umsjón með heimaþjónustu ljósmæðra.


Nefndin leggur til að samið verði við sjálfstætt starfandi heimilislækna á nýjum forsendum. Samningur sjálfstætt starfandi heimilislækna við heilbrigðisyfirvöld rennur út um næstu áramót en nú eru 12 sjálfstætt starfandi heimilislæknar í Reykjavík. Að mati nefndarinnar er eðlilegt í ljósi efnahagsástandsins að kjör þessara lækna verði færð til samræmis við það sem gerist innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Einnig sé eðlilegt að gera kröfu til þeirra um að sinna forvörnum og heilsuvernd í ríkara mæli en verið hefur.


Lagt er til að komið verði á fót miðlægri skráningu þar sem hver sjúklingur er skráður hjá tilteknum heilsugæslulækni sem verður ábyrgur fyrir læknisþjónustu viðkomandi. Vegna skorts á heilsugæslulæknum verði þessu fyrirkomulagi komið á í áföngum.


Loks leggur nefndin til að innleiðingu rafrænnar sjúkraskrár á landsvísu verði að fullu lokið innan þriggja ára. Samtenging sjúkraskráa er komin vel á veg en nefndin telur mikilvægt að ljúka því að tengja saman öll sjúkraskrár- og upplýsingakerfi innan heilbrigðiskerfisins í samræmi við öryggiskröfur. Með því megi tryggja meiri samfellu í meðhöndlun sjúklinga, draga úr tvíverknaði og endurtekningu á ónauðsynlegum rannsóknum.Heilbrigðisráðherra hefur ekki tekið afstöðu til tillagnanna en segir skýrsluna mikilsvert innlegg í umræðuna um eflingu heilsugæslu í landinu.

Formaður nefndarinnar var Ingimar Einarsson, skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu. Aðrir nefndarmenn voru:   Halla B. Þorkelsson, fulltrúi Öryrkjabandalags Íslands, Hildur Svavarsdóttir, heilsugæslulæknir, Ingólfur V. Gíslason, dósent, Ófeigur Tryggvi Þorgeirsson, læknir, Pétur Pétursson, heilsugæslulæknir og Þórunn Ólafsdóttir, hjúkrunarforstjóri. Starfsmaður nefndarinnar var Leifur Benediktsson, deildarstjóri í heilbrigðisráðuneytinu.

Tillögur nefndarinnar
Skýrsla nefndar heilbrigðisráðuneytisins