Leghálskrabbameinsleit hjá ljósmæðrum

bleika slaufanEftir 1. febrúar býðst konum á Suðurlandi að panta tíma í leghálskrabbameinsleit hjá ljósmóður á sinni heilsugæslustöð.

Skoðanir bjóðast á flestum heilsugæslustöðvum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

 

Þegar konum hefur borist boðsbréf frá Krabbameinsleitarstöðinni þá geta þær pantað tíma á sinni heilsugæslustöð.

 

Að undanförnu hefur Krabbameinsfélag Íslands staðið fyrir átaki til þess að hvetja konur að mæta í leghálskrabbameinsleit. Þátttakan á Íslandi hefur farið minnkandi undanfarin ár og er nú víða undir 50 %. Sérstaklega hefur þátttakan dregist saman á landsbyggðinni, en á árum áður mættu konur yfirleitt mun betur úti á landi sem nú hefur snúist við.

Sú breyting hefur orðið á leitinni að nú framkvæma ljósmæður einnig leghálssýnatökuna, og er það nú þegar byrjað á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í Reykjavík og á heilsugæslustöðvum víðast hvar um landið. Þessi háttur er hafður á í mörgum nágrannalöndum okkar og þar er þátttakan mun meiri en hér á landi.

Leghálskrabbameinsleit skilar góðum árangri svo framarlega sem konur mæta. Dánartíðni af völdum leghálskrabbameins hefur lækkað um 90 % síðan skipulögð leit hófst.

Allar konur á aldrinum 23-65 ára sem hafa einhvern tímann lifað kynlífi ættu að þiggja boð um leghálskrabbameinsleit á þriggja ára fresti. Er það ein mikilvægasta heilsuvernd sem konum stendur til boða. Regluleg leghálskrabbameinsleit hefur álíka heilsuverndandi áhrif eins og bólusetning barna.

 

Með því að mæta í leghálssýnatöku á þriggja ára fresti, minnkar þú stórlega hættuna á að þú fáir leghálskrabbamein.

 

Áfram verður komið með brjóstamyndatöku annað hvert ár og reiknað er með að hluti kvenna mæti í sýnatökuna í tengslum við hana.