Um þagnarskylduna

 

 

Allir sjúklingar eiga rétt á að meðferð þeirra og umönnun sé fyrsta flokks og í samræmi við kröfur tímans hverju sinni.

 

Eitt af mikilvægari atriðum í þessu sambandi og á við okkur öll sem vinnum hér á sjúkrahúsinu er þagnarskyldan.

 

Það er sjálfsagður réttur hvers sjúklings að farið sé með allar upplýsingar er varða dvöl hans hér, og sjúkdómsgreiningu, sem algjört trúnaðarmál.
Því miður vill það einstaka sinnum brenna við að þessa atriðis sé ekki gætt sem skyldi, enda þótt engin ástæða sé til að ætla að meiri brögð séu að slíku hér á HSU en annars staðar.

 

það er þó alltaf svo að í litlum bæjarfélögum verða mál sem þessi viðkvæmari en ella og er því alveg sérstök ástæða til að við minnum okkur sífellt á skyldur okkar í þessum efnum.

 

Þagnarskyldan helst þó látið sé af störfum.

 

Kröfur sem gerðar eru til starfsmanna HSU

 

Öll störf á sjúkrahúsi eru mikilvæg. Þau eru unnin fyrir þá sjúku sem þar dvelja og séu þau vel af hendi leyst stuðla þau beint/óbeint að vellíðan þeirra og bata.

 

1. Óskir og þarfir sjúklinga skulu virtar framar öllu öðru.

 

2. Áhersla er lögð á háttvísi, góðvild og gagnkvæma virðingu í öllum samskiptum.

 

3. Þagnarskylda um einkamál sjúklings skal virt.

 

4. Forðast ber óþarfa umgang og hávaða inni á stofum og þá sérstaklega á hvíldartíma milli kl. 13 – 14 á daginn.

 

5. Hreinlætis og snyrtimennsku sé gætt í klæðaburði. Skrauthringir og armbönd ekki talin æskileg.

 

6. Veikindaforföll ber að tilkynna á deild svo fljótt sem unnt er fyrir hvern dag þegar um styttri veikindi er að ræða en annars áður en starf getur hafist aftur að nýju.

 

7. Farið sé vel með húsmuni, tæki og hjúkrunargögn í eigu sjúkrahúss.

 

8. Stundvísi er nauðsynleg í vinnu.