Langvinn lungnateppa

LANGVINN LUNGNATEPPA (LLT) er sjúkdómur sem veldur mikilli skerðingu á lífsgæðum þeirra sem af honum þjást. Sjúkdómurinn verður æ algengari og  áætlar Alþjóða heilbrigðisstofnunin að árið 2020 verði LLT í þriðja sæti yfir algengustu dánarorsök í heiminum.

Til langvarandi lungnateppu teljast tveir nátengdir sjúkdómar í lungum, langvinn berkjubólga og lungnaþemba. Langvinn berkjubólga lýsir sér sem bólga í berkjum sem orsakast af langvarandi ertingu. Bólgusvörun veldur þrengslum í lungnaberkjum sem leiða til þess að inn- og útöndun verður erfiðari. Slímframleiðsla eykst og hreinsun lungna verður ófullnægjandi. Í lungnaþembu verða skemmdir í lungnablöðrum sem leiðir til skertrar starfsemi lungna og skerðingar á súrefnisupptöku til vefja líkamans.

Einkenni langvinnar lungnateppu þróast á löngum tíma og koma yfirleitt ekki fram fyrr en eftir miðjan aldur og eru hósti og uppgangur oft fyrstu einkenni. Eftir því sem sjúkdómurinn ágerist fara einkenni eins og þyngsli fyrir brjósti, blámi á vörum og þreyta að gera vart við sig. Mæði (dyspnea) er þó algengasta einkenni LLT og er það einkenni sem veldur hvað mestri vanlíðan og skerðingu á lífsgæðum einstaklinga. Meðferð þessara skjólstæðinga er yfirgripsmikil og nær til margra þátta. Meðferð LLT felst fyrst og fremst í að bæta líðan einstaklingsins og hindra versnun sjúkdómsins og ætti fyrst og fremst að beinast að þeim einkennum sem skjólstæðingarnir sjálfir telja vera mest hamlandi í daglegu lífi og veldur þeim mestri skerðingu og vanlíðan. Mikil áhersla er á lungnanendurhæfingu sem meðferðarúrræði fyrir einstakinga með LLT. Lungnaendurhæfing felur í sér þætti eins og hreyfingu, næringu, fræðslu, slökun og síðast en ekki síst aðstoð við reykleysi. Ætti þetta meðferðarúrræði að vera í boði fyrir alla, óháð aldri eða búsetu, því auðveldlega má aðlaga alla þessa þætti að andlegri og líkamlegri getu einstaklingsins.

f.h. Heilbrigðisstofnunar  Suðurlands

Jóna Bára Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur
HSU Hornafirði