Landspítali yfirtekur rekstur Sogns


Frá og með 1. apríl, hefur Landspítali (LSH) umsjón með rekstri Réttargeðdeildarinnar á Sogni. Heilbrigðisstofnun Suðurlands og þar áður Heilbrigðisstofnunin á Selfossi hafa haft umsjón með rekstri deildarinnar síðan hún var stofnuð 1992.


Heilbrigðsráðuneytið fól LSH að taka formlega við rekstri deildarinnar frá og með 1.apríl. Starfsemi deildarinnar verður áfram á Sogni og starfsmenn verða áfram starfsmenn Réttargeðdeildarinnar. Geðsvið LSH mun hafa yfirumsjón með rekstrinum. Með því skapast meiri möguleikar á samstarfi við geðdeildir LSH og samnýtingu á faglegri þekkingu.


 

Ástæður þessarar breytingar eru fyrst og fremst þær, að ekki tókst að ráða geðlækni til starfa á deildina, en núverandi geðlæknir hættir störfum í lok apríl. Þá var fjárhagslegur rekstrargrundvöllur deildarinnar orðinn þannig, að ef takast ætti að reka deildina í samræmi við fjárveitingu þá yrði öryggi starfs- og vistmanna stefnt í hættu. Með yfirtöku LSH á rekstri deildarinnar skapast möguleikar á hagræðingu með sameiginlegum vöktum ofl.


Starfsfólk HSu þakkar starfsfólki Réttargeðdeildarinnar fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum árum með bestu óskum um að þessi breyting verði til að bæta þjónustu við vistmenn og verði starfsfólki til góðs.