Læknaráð HSu ályktar um tillögur heilbrigðisráðherra

Á fundi sínum þann 16. janúar sl. samþykkti Læknaráð HSu eftirfarandi ályktun  varðandi tillögur Heilbrigðisráðuneytis (HR) um skipulagsbreytingar í heilbrigðiskerfinu frá 7. Janúar 2009.


1. Læknarráð lýsir vonbrigðum yfir þeim einhliða vinnubrögðum sem virðast viðhöfð við vinnu og framsetningu þessara tillagna. Tillögurnar eru ekki unnar í samvinnu við fagfólk og heimamenn á þjónustusvæði HSu og engir kostnaðar- eða hagkvæmnisútreikningar fylgja þeim. Tillögur þessar virðast settar saman útfrá sjónarmiði þeirra sem búa í þéttbýli og taka lítið tillit til hagsmuna og öryggis íbúa sem búa utan höfuðborgarsvæðisins eða á Akureyri.


 

2. Við HSu hefur markvisst verið unnið að eflingu þjónustu í heimabyggð og öryggi fyrir 20.000 Sunnlendinga. Sækja verður frekari þjónustu til Reykjavíkur um fjallveg þar sem flest banaslys verða árlega og veður og færð valda ófærð á vetri hverjum.


3. Lokun vaktþjónustu á skurðdeild HSu kippir burt forsendum fyrir starfi fæðingar- og kvensjúkdómalæknis, skurðlæknis og svæfingarlæknis. Þar með telur Læknaráð að forsendur sjúkrahúsþjónustu HSu við fæðandi konur séu brostnar og ljóst að fæðingarþjónusta Sunnlenskra kvenna mun færast yfir á Landspítalann. Þetta er mikil skerðing á þjónustu við fæðandi konur og þær konur sem leita þurfa til kvensjúkdómalæknis.


4. Þó kynnt sé efling bráða- og slysamóttöku við HSu er með fækkun lækna sem sinna sjúkrahúsinu og niðurlagningu vaktþjónustu skurðlæknis og svæfingarlæknis ljóst að sú slysa- og bráðaþjónusta verður takmörkuð.


5. Tillögur eru um sameiningu vaktsvæða heilsugæslu og sparnað á forsendum þess að verið sé að minnka álag á starfsfólk. Vert er að benda á að um leið skerðist opnunartími læknastöðva og tíminn lengist þar til slasaðir eða sjúkir fá þjónustu.


6. Læknaráð telur tillögur HR aðför að starfsemi HSu og starfsfólki við HSu. Íslenskt fagfólk er samkeppnisfært á alþjóðavísu og næg eru vandamálin við að fá hæft starfsfólk til starfa úti á landi þó það sé ekki hrakið burt. Sjúkrahús í þéttbýli með fjölbreyttari þjónustu, fleira starfsfólk og stoðþjónustu, dreifðari ábyrgð starfsfólks og minna vinnuálag hafa hingað til þurft að slást um vinnuafl. Fagfólk sem ráðið hefur sig út á land gerir slíkt flest í krafti fjölskyldutengsla eða lífstíls. Það sér nú fram á skerta möguleika til að viðhalda fagþekkingu og færni sinni og þar með skerta atvinnumöguleika þess síðar á ævinni.


7. Læknaráð telur að erfitt muni reynast að efla sérgreinalæknaþjónustu við HSu eftir þennan umfangsmikla niðurskurð og hætta sé frekar á að þjónusta sérgreinalækna og annars fagfólks færist enn frekar af svæðinu.


8. Læknaráð telur einsýnt að skerðing starfsemi HSu muni hafa veruleg áhrif á almenning, sveitarfélög og samfélagið á Suðurlandi. Lækkað þjónustustig heilbrigðisstarfsemi og þörf fyrir að sækja þjónustu utan svæðisins mun valda óánægju og óöryggi að ekki sé nefnt aukinn kostnað og fyrirhöfn einstaklinga. Staða HSu sem kennslustofnunar mun dala og sú uppbygging kennslu heilbrigðisstarfsmanna á svæðinu sem tengst hefur starfsemi HSu lendir í uppnámi.

Selfossi 16. janúar 2009


Þórir B Kolbeinsson formaður,


Ágúst Ö Sverrisson meðstjórnandi


Arnar Þór Guðmundsson meðstjórnandi