Þann 14. ágúst 2019 stóð heilbrigðisráðherra fyrir opnum fundi um heilbrigðisstefnu til ársins 2030, í samvinnu við Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Fundurinn var haldinn í fundarsal Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi og hægt er að nálgast upptöku af fundinum hér.
Heilbrigðisstefna – stefna fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi 3. júní síðastliðinn. Kynning á stefnunni er liður í innleiðingu stefnunnar í öllum heilbrigðisumdæmum landsins.
Á fundinum fór Svandís Svararsdóttir heilbrigðisráðherra yfir hvað felst í stefnunni, hvaða breytingar hún er líkleg til að hafa í för með sér og hvers vegna hún skiptir svo miklu máli, hvort heldur í þéttbýli eða í dreifðari byggðum landsins. Herdís Gunnarsdóttir forstjóri HSU fór yfir sýn forstjóra á stefnuna, ákoranir á Suðurlandi og ný verkfni á HSU, hvaða gildi stefnan hefur við skipulag heilbrigðisþjónustu í umdæminu og gildi samstarfs allra aðila. María Heimisdóttir forstjóri Sjúkratrygginga Íslands fór yfir áhrif stefnunnar á hlutverk og starfsemi SÍ við að kostnaðargreina og semja um kaup á allri heilbrigðisþjónsutu og hvaða áskoranir blasa við næsta áratug í heilbrigðisþjónustu. Auk þeirra tóku Eva Björg Harðardóttir sveitarstjóri Skaftárhrepps og formaður SASS og Ásthildur Knútsdóttir skrifstofustjóri gæða og forvarna í Heilbrigðisráðuneytinu þátt í pallborðsumræðum. Fundarstjóri var Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri Hveragerðisbæjar og formaður SÍS. Á fundinn mættu um 50 manns og góðar, áhugaverðar og uppbyggilegar umræður sköpuðust á fundinum.
Við á HSU þökkum öllum hlutaðeigandi fyrir ánægjulegan fund og bindum ríkar vonir við öflugan framgang nýrrar heilbrigðisstefnu.
Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.