Kvenfélagskonum boðið í beinþéttnimælingu á heilsugæsluna á Selfossi

Í tilefni af alþjóðlega beinverndardeginum þann 20. október s.l. fór  stjórn Kvenfélags Selfoss þess á leit við Heislugæslu Selfoss að  félagskonur gætu komið í beinþéttnimælingu.

Á fyrsta fundi  vetrar hjá Kvenfélagi Selfoss þann 9. október s.l. var Halldóra Björnsdóttir, starfsmaður beinverndar, með erindi um skrefin þrjú til beinverndar. Þetta var áhugavert erindi sem vakti upp ýmsar spurningar hjá fundarkonum s.s. hvað er hægt að gera og hvernig vitum við hvort byrjandi beinþynning er til staðar og ef svo er, hvað þá?

Fyrsta skrefið er að láta mæla hver staða beina er hjá viðkomandi  einstaklingi en á heilsugæslunni á Selfossi er til  beinþéttnimælitæki sem gefur vísbendingu um hvort viðkomandi sé  með „gisin bein“.

Í framhaldi af fundi setti Kvenfélag Selfoss  sig í samband við heilsugæsluna og var það úr að kvenfélagskonum var boðið að koma í beinþéttnimælingu.

 Í þeim tilvikum sem grunur er um beinþynningu verður konum vísað áfram til frekara mats.

Kvenfélag Selfoss hefur í gegnum tíðina verið einn af helstu stuðningsmönnum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, þar með talið heilsugæslunnar og var því ákveðið að verða við þessar bón og bjóða konum í áðurnefnda mælingu.