Kvenfélagið Líkn gefur til sjúkradeildar HSU-Vestmannaeyjum

Nýlega færði Kvenfélagið Líkn Sjúkradeild HSU-Vestmannaeyjum veglega gjöf til endurnýjunar á eftirlitstækjum á sjúkradeild. Líkn stendur árlega fyrir sérstakri Aprílsöfnun og söfnunin 2016 var tileinkuð kaupum á eftirlitstækjum á sjúkradeild HSU- Vestmannaeyjum og er áætlað að sá búnaður verði tilbúinn til notkunar á næstu vikum.

Með þessum eftirlitsbúnaði er hægt að fylgjast með hjartslætti, blóðþrýstingi og súrefnismettun hjá sjúklingum, bæði rúmliggjandi en einnig fólki sem er á fótaferð. 

Mælingar birtast á skjá sem staðsettur er inni á vaktherbergi hjúkrunarfólks á sjúkradeild. Búnaðurinn sendir einnig viðvörun í vaktsíma hjúkrunarfræðings komi eitthvað óeðlilegt fram.

Með þessum búnaði er hægt að fylgjast með fleiri sjúklingum, á stærra svæði og hjúkrunarfræðingur fær samstundis viðvörun komi eitthvað athugunarvert fram í mælingum. Verðmæti þessarar gjafar er 8.084.067 kr.

Það er mikilvægt fyrir íbúa í Vestmannaeyjum að viðeigandi tæki og búnaður séu til staðar þannig að hægt sé að veita sem besta og öruggasta heilbrigðisþjónustu í heimabyggð.

Árið 2017 verður Aprílsöfnun Kvenfélagsins Líknar tileinkuð nýjum tækjum fyrir rannsóknarstofu HSU-Vestmannaeyjum.  Um er að ræða rannsóknartæki  sem mæla hjartaensím og önnur efni sem myndast ef einstaklingur fær hjartaáfall eða blóðtappa. Eru nauðsynlegar mælingar  þegar um bráðaveikindi eru að ræða og mikilvæg til greiningar og að ákveða meðferð sjúklinga. Að auki mælir tækið til dæmis skjaldkirtilshormón,  B-12,  Ferritin og  blöðruhálskirtilshormón.

Það tæki sem til var er ónýtt.  Komi til bráðaveikindi  þar sem grunur er um hjartasjúkdóm eða blóðtappa er í dag notast við tæki þar sem hægt er að mæla grunngildi en er mjög dýrt í rekstri og óhentugt. Aðrar mælingar þarf að senda til Reykjavíkur. Verðmæti þessa tækis er um 4,000,000 kr.

Að venju mun kvenfélagið Líkn senda út bréf til fyrirtækja hér í bæ varðandi Aprílsöfnunina. Stuðningur bæjarbúa og félagsamtaka við Heilbrigðisstofnunina er ómetanlegur og óskar stofnunin eftir að koma fram þakklæti vegna þess.