Kvenfélag Selfoss heimsækir HSU

 

Í dag sumardaginn fyrsta kom stór hópur prúðbúinna kvenna í Kvenfélagi Selfoss í heimsókn á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Tilefni heimsóknarinnar var að um þessar mundir fagna kvenfélagskonur 70 ára afmæli félagsins.  Af því tilefni færði Helga Hallgrímsdóttir formaður Kvenfélags Selfoss Herdísi Gunnarsdóttur forstjóra HSU bókina að gjöf um sögu félagins. Hópurinn heimsótti einnig heimilismenn á Foss- og Ljósheimum og fluttu þeim söng við gítarundirspil. 

 

Sigrún Ásgeirsdóttir kennari og áður læknaritari hjá HSU skrásetti sögu félagsins í bókina sem ber heitið „Þannig vinni samtök svanna“.  Sigrún greindi frá nokkrum þáttum úr sögu félagsins.  Þar kom fram að við stofnun kvenfélagsins árið 1948 hafi markmið þess einkum verið þríþætt í Selfosshreppi. Stofnaðir voru sjóðir til að setja á fót leikvelli fyrir börn á Selfossi og til að byggja kirkju og sjúkrahús. Merkilegt var að heyra Sigrúnu segja frá því að kvenfélagskonur gáfu allar sængur, kodda, handklæði og lín til bráðabirgðasjúkrahúss á Selfossi árið 1957.  Samþykkt var einróma að konurnar saumuðu allt lín, sængurföt og starfsmannafatnað til nota á sjúkrahúsinu í sjálfboðavinnu. 

 

Það er því ljóst að frumkvæði og vinnusemi kvenna á Selfossi varð til þess að hægt var að opna hér sjúkrahús í upphafi.  Málefni sjúkrahússins á Selfossi, fæðingadeildarinnar, hjúkrunardeilda og heilsugæslunnar, hafa ávallt verið í brennidepli hjá kvenfélagskonum.  Þær hafa með myndarlegum hætti stutt við starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands með rausnarlegum gjöfum á allar deildir HSU. 

 

Við færum konum í Kvenfélagi Selfoss hugheilar þakkir fyrir eljusemi og rausnarskap í stuðningi við heilbrigðisþjónustuna hjá HSU.  Gjafir og vinnuframlag kvennanna er ómetanlegt og verður seint full þakkað.  Við samgleðjumst þeim og óskum félagskonum innilega til hamingju með afmælið og framúrskarandi starf í 70 ár.

 

Gleðilegt sumar,

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.