Kristján Oddsson ráðinn aðstoðarlandlæknir

Kristján Oddsson, heilsugæslulæknir á Kirkjubæjarklaustri, hefur verið ráðinn aðstoðarlandlæknir í eitt ár frá og með 15. október nk. Svo sem fram hefur komið í fjölmiðlum hefur Sigurður Guðmundsson landlæknir ráðið sig til starfa í Malaví á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands ásamt eiginkonu sinni, Sigríði Snæbjörnsdóttur, hjúkrunarfræðingi og framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.Þau hafa ráðið sig til starfa í eitt ár við að byggja upp heilbrigðisþjónustu á Monkey Bay-svæðinu í Malaví þar sem Þróunarsamvinnustofnun hefur veitt fé og tæknilega aðstoð á undanförnum árum. Munu þau hefja störf í Malaví 15. október næstkomandi.

Í fjarveru Sigurðar gegnir Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir stöðu landlæknis en í starf aðstoðarlandlæknis hefur verið ráðinn Kristján Oddsson heimilis- og kvensjúkdómalæknir. Kristján lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands 1989, stundaði framhaldsnám í heimilislækningum og síðar kvensjúkdómalækningum á Íslandi og í Noregi. Hann er með meistarapróf í lýðheilsufræðum frá Háskólanum í Tromsö í Noregi og meistarapróf í heilbrigðisstjórnun frá Minnesotaháskóla. Kristján hefur starfað sem heilsugæslulæknir á Kirkjubæjarklaustri frá ársbyrjun 2005
Í fjarveru Kristjáns mun Kristinn Benediktsson, sem starfað hefur sl. ár í hálfu starfi á móti Kristjáni sem heilsugæslulæknir á Kirkjubæjarklaustri, leysa Kristján af og vera í fullu starfi frá næstu áramótum.