Kostnaður við að fá aðstoð sjúkraflutningamanna

Sá leiði misskilningur hefur farið af stað að kostnaður þeirra sem óska eftir sjúkrabíl, hlaupi á tugum þúsunda króna og hefur talan 70 þúsund oft verið nefnd í því samhengi. Þekktir menn hafa komið fram í fjölmiðlum fullyrt að svo væri, en það er sem betur fer á misskilningi byggt.

 

Hið rétta er að þeir sem eru sjúkratryggðir á Íslandi greiða 5.500,- kr. til Rauða Kross Íslands fyrir sjúkrabíl, en þjónusta sjúkraflutningamanna er að fullu greitt af íslenska ríkinu.

Hér á landi eru allir þeir hafa lögheimili hér á landi og hafa verið það a.m.k síðustu sex mánuðina sjúkratryggðir, s.b. reglugerð 1175/2011 3. gr.

Þeir erlendir ríkisborgarar sem EKKI eru með sjúkratryggingar hér á landi, t.d. ferðamenn, þurfa hins vegar að greiða fyrir þessa þjónustu í samræmi við reglugerð 1176/2011 sem tók gildi nú um áramótin. Þó ber að geta þess að þeir ferðamenn sem hafa ferðatryggingar geta fengið endurgreiðslu frá sínu tryggingafélagi þegar heim er komið, alveg á sama hátt og íslenskir ríkisborgarar gera ef þeir þurfa á sambærilegri þjónustu erlendis.

Ármann Höskuldsson,

yfirmaður sjúkraflutninga HSu.