Kostir uppréttra stellinga

Hríðir verða kröftugri og reglulegri og slökun meiri í leginu á milli hríða


· Opnun leghálsins (útvíkkun) gengur hraðar
· Þrýstingur frá kolli barnsins á leghálsinn verður meiri milli hríða
· Fyrsta og annað stig fæðingar styttist um allt að 40%
· Betra blóðflæði er um líkamann og þar af leiðandi betri súrefnisflutningur til barnsins
· Færri aðþrengd börn og börn sprækari við fæðingu (hærri apgar)
· Meiri þægindi fyrir konuna, minni streita, minni sársauki og þar af leiðandi minni verkjalyf
· konum finnst þær vera meiri þátttakendur í fæðingunni


(Janet Balaskas — New Active Birth)

Þegar legvatnið fer:
Legvatnið getur farið hvenær sem er í fæðingunni.
Fæðing getur byrjað með því og ef kollur barnsins er skorðaður, er ekkert að óttast og engar ráðstafanir sem þarf að gera, bara hringja í ljósmóður og láta vita af því. En ef kollurinn er ekki skorðaður niður í mjaðmagrindina, er hætta á að við það að vatnið fari, renni hluti af naflastrengnum niður fyrir koll barnsins (naflastrengsframfall) og lendi þar í klemmu milli kollsins og mjaðmagrindarinnar.
Þess vegna þurfa þær konur sem missa vatnið með óskorðaðan koll að koma með sjúkrabíl á sjúkrahúsið. Í þeim tilvikum er öruggast að leggjast á fjóra fætur strax og vatnið fer og setja brjóst niður í gólf/dýnu (rassinn þá efstur) og létta þannig á þrýstingi niður í mjaðmagrindina og hugsanlegri klemmu á naflastreng.