Kórónuveirusmit kom upp á sjúkrahúsinu á Selfossi

Enn og aftur eru við minnt á raunveruleikann sem blasir við okkur, kórónuveirufaraldurinn er svo sannarlega ekki búinn. Á miðvikudaginn kom upp smit innan HSU á Selfossi en skjót og fagleg viðbrögð starfsmanna virðist hafa komið í veg fyrir frekari útbreiðslu. Núna hefur fjöldinn allur af starfsmönnum farið í sýnatöku og hafa niðurstöður til þessa verið neikvæðar.

Það er mikil aukning á COVID-19 smitum í landinu og á síðustu dögum hefur einnig verið mikil aukning á Selfossi. Vegna stöðunnar hafa reglur um heimsóknir á HSU nú verið hertar. Mikilvægt er að gestir fari eftir reglum deilda og komi ekki í heimsókn ef þeir eru í sóttkví, með einkenni eða bíða eftir niðurstöðum úr sýnatökum. Einnig vil ég biðja fólk sem er að koma erlendis frá að ráðfæra sig við starfsmenn viðkomandi deilda áður en hugað er að heimsókn.

Ég vil ítreka miklvægi þess að við pössum okkur sérstaklega vel og hugum mjög vel að okkar persónubundnu sóttvörnum til að forðast smit á sama tíma sem við ráðleggjum öðrum að gera slíkt hið sama.

Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU