Kórónaveirusmit á Íslandi

Seinni partinn 28. febrúar kom fram í fréttum og á blaðamannafundi Almannavarna og Landlæknis að fyrsta staðfesta tilfellið af COVID-19 veirusýkingu hafi greinst á Íslandi. Um er að ræða einstakling búsettan í Reykjavík. Hann hafði komið heim frá Norður-Ítalíu 22. febrúar s.l. eftir viku dvöl og var þá einkennalaus. Þegar einkenni komu fram fór hann til læknis og sýnataka leiddi síðan í ljós að um þessa nýju veiru var að ræða. Hann liggur núna smitsjúkdómadeild Landspítala í Fossvogi í einangrun. Hann var ásamt fjölskyldu sinni í skíðaferðalagi í bænum Andolo í Trentino-héraði á Norður-Ítalíu. Verið að skoða náið hverjir hafa verið í samneyti undanfarið við manninn, sem er á fimmtugsaldri. Líklegt er að einhverjir af þeim þurfi að vera í sóttkví. Engin önnur tilfelli hafa greinst að svo stöddu, en líklegt er að svo verði. Það er því aftur ástæða til að skerpa á því að allir sinni og beri ábyrgð á eigin sóttvörnum til að draga úr smithættu bæði sjálfs síns og annarra. Það innifelur að gæta hreinlætis og forðast náið samneyti við fólk sem er með hita, kvef eða flensueinkenni, sjá nánar fylgjandi mynd frá Landspítala og upplýsingar á vefsíðunni www.landlaeknir.is“.

 

Mikilvægt er að nálgast faraldur eins og þennan af æðruleysi og stofnanir samfélagsins hafa verið að búa sig undir hann síðustu vikur. Sóttvarnir almennings eru ekki síður mjög mikilvægar og því duglegra sem fólk er að gæta að sér því minni og hægari verður útbreiðslan.“