Kiwanismenn í Ölfusi gefa Heilsugæslu Þorlákshafnar

Sl. föstudag afhentu Kiwanismenn í Ölfusi Heilsugæslu Þorlákshafnar skoðunarbekk og tilheyrandi búnað. Kiwanisklúbburinn Ölver hefur lengi staðið við bakið á heilsugæslunni og skemmst er að minnast röntgenbúnaðar sem klúbburinn gaf á síðasta ári.

Styrktarstarfið er þungamiðja félagstarfs Ölvers líkt og annarra kiwanisklúbba. Framundan eru helstu fjáröflunarverkefni klúbbsins, sem eru jólatrjáa- og flugeldasala.  Þessi verkefni hafa gengið vel mörg undanfarin ár og hefur verið samstarf um flugeldasöluna við björgunarsveitina Mannbjörgu. Afrakstur þessara fjáröflunarverkefna hefur farið í styrkveitingar til stofnana, félaga og einstaklinga í Ölfusi. Auk heilsugæslunnar hefur Ölver í haust gefið eldri borgurum snyrtistól og vinnustað fatlaðra var gefin saumavél.
Á meðfylgjandi mynd eru fulltrúar gefenda ásamt Bergdísi Sigurðardóttur, hjúkrunarstjóra og Helga Haukssyni, yfirlækni heilsugæslustöðvarinnar.


(Úr frétt Sunnlenska fréttablaðsins 06.12.07)