Kíghósti á Íslandi

Sóttvarnalæknir vill vekja athygli á að sem af er árinu 2012 hafa tæplega 10 einstaklingar greinst með kíghósta á Íslandi, miðað við ekkert tilfelli á árinu 2011. Flestir einstaklinganna voru börn yngri en 5 mánaða og því ekki fullbólusett og nokkur þeirra þurftu á innlögn á sjúkrahús að halda.

 

Bólusetning gegn kíghósta er frábrugðin öllum öðrum bólusetningum á þann veg að verndin endist einungis um 10 ár og bólusetningin útrýmir ekki bakteríunni úr samfélaginu. Kíghósti verður því viðvarandi í samfélaginu og eldri einstaklingar með kíghósta geta sýkt ung börn.

 

Almenn bólusetning barna gegn kíghósta hefur nánast útrýmt alvarlegum kíghósta hjá ungum börnum en mun aldrei getað komið algjörlega í veg fyrir sýkingu hjá óbólusettum börnum.

 

Besta ráðið til forða ungum börnum frá kíghósta er með almennri bólusetningu en á Íslandi er bólusett við 3., 5 og 12 mánaða og svo aftur við 4. og 14 ára aldur.

 

Rétt er að minna á að kíghósti er tilkynningaskyldur sjúkdómur og þurfa læknar að senda sóttvarnalækni klínískar tilkynningar en að auki berast tilkynningar um staðfest tilfelli frá sýklafræðideild.