Sérnám í heimilislækningum við HSU

Sérnám í heimilislækningum á sér langa sögu á Íslandi og er fyrsta sérnám í læknisfræði sem læknum bauðst að taka hérlendis. Áður fyrr var algengt að skipta náminu upp og taka hluta erlendis en í dag er boðið upp á fullt 5 ára nám hérlendis.

Við HSU eru nú 4 sérnámslæknar í heimilislækningum, þrír við heilsugæsluna á Selfossi og einn í Vestmannaeyjum. Sérnám í heimilislækningum tekur 5 ár og fer rúmur helmingur námsins fram á heilsugæslustöð eða allt að þrjú ár.  Námið er starfsnám og á þessum tíma sinnir sérnámslæknirinn öllum almennum störfum heimilislæknis, er með fastan sjúklingahóp og móttöku fyrir þá, tekur vaktir, sinnir bráðamóttöku og tekur þátt í heilsuvernd, og ungbarnaeftirliti. Allt þetta er gert undir umsjón og handleiðslu sérfræðinga stöðvarinnar.

Árið 2015 kom fram breyting á reglugerð 467/2015, en þar er fjallað um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi.

 

Reglugerð nr 467:

Í þessari reglugerð kemur fram að sérnám skuli fara fram skv marklýsingu í sérgreininni. Slík marklýsing hefur verið til í fjölda ára, en endurskoðuð útgáfa hennar kom út árið 2017 og liggur til grundvallar sérnáminu.

Í reglugerð nr 467 kemur fram að sérnámið við stofnunina sé á ábyrgð framkvæmdastjóra lækninga viðkomandi stofnunar en hann útnefni síðan kennslustjóra til að halda utan um þetta. Framkvæmdastjóri lækninga við HSU er Hjörtur Kristjánsson og kennslustjóri er Arnar Þór Guðmundsson yfirlæknir heilsugæslunnar á Selfossi.  Í reglugerðinni kemur einnig fram að Velferðarráðuneytið skipi mats- og hæfisnefnd sem meti hvaða heilsugæslustöðvar og heilbrigðisstofnanir uppfylli kröfur fyrir sérnám í heimilislækningum.

 

Marklýsingin:

Í marklýsingunni er kveðið á um inntöku í sérnámið, innihald, fyrirkomulag og lengd námsins. Einnig er útlistun á einstökum námshlutum, farið í gæðakröfur, handleiðslu og hæfismat.

 

Fyrirkomulag sérnáms:

Námið er fof starfsnám sem tekur 5 ár. Alls eru þrjú ár í heilsugæslu og 2 á sjúkrahúsi.  Í upphafi sérnámsins fær sérnámslæknirinn mentor/handleiðara sem fylgir honum eftir allan námstímann. Mentorar eru sérfræðingar í heimilislækningum en hlutverk þeirra er að hitta sérnámslækninn reglulega, fara yfir framvindu og skipuleggja námið, í samvinnu við kennslustjóra.  Mentor, og aðrir starfsmenn stöðvarinnar fylgjast með styrkleikum og veikleikum og gefa viðeigandi endurgjöf.  Meðal þess sem gert er reglulega er að fara yfir færslur í sjúkraskrá (nótnafundir), gera reglulega formlegt mat á framvindu námsins en þá er fengið álit allra starfsmanna, og gera s.k. myndbandsgátun en þá er tekið upp samtal sérnámslæknisins og sjúklings sérlega með það í huga að skoða samskipti og hegðun í viðtali. Til viðbótar eru tilfellafundir vikulega, og fræðslufyrirlestrar einu sinni í viku, en sérnámslæknirinn tekur þátt í þeim ásamt öðrum læknum stöðvarinnar og er veitt umsögn fyrir frammistöðuna.  Við mat á framgangi námsins er notast við matsblöð sem læknar stöðvarinnar fá þjálfun í að fylla út. Læknaritarar taka að sér að halda utan skipulag matsfunda og sjá til þess að matsblöð séu útfyllt og þau geymd í sérnámsmöppu viðkomandi sérnámslæknis.

Fræðilegi hluti námsins fer fram í hópkennslu með öðrum sérnámslæknum sem hittast í hverri viku í Reykjavík. Um er að ræða 10-15 manna hóp og er einn stjórnandi. Í þessum hluta námsins eru s.k. kjarnafyrirlestrar, ásamt vinnustofum þar sem ýmislegt er tekið fyrir, m.a. verklegir þættir. Þá taka sérnámlæknarnir reglulega Ameríska heimilislæknaprófið til að fylgjast með framgangi. Einnig taka sérnámslæknarnir þátt í Balintfundum. Sérnámslæknar gera rannsóknarverkefni á námstímanum sem þeir kynna á heimilislæknaþingi sem haldið er annað hvert ár. Þeir fá jafnfram kennslu í rannsóknarvinnu.  Sérnámslæknar taka þátt í ráðstefnum innalands og utan, ásamt því að fara á ýmis námskeið.

Mentorar eða handleiðarar sérnámslækna eru reyndir sérfræðingar í heimilislækningum sem taka að sér vera leiðbeinendur og sá aðili sem sérnámslæknirinn getur leitað til með hvers kyns vandamál.  Þeir sem taka að sér að verða mentorar við HSU hafa allir farið á mentoranámskeið og stefnir HSU að því að sem flestir sérfræðingar stofnunarinnar fari á slíkt námskeið.  Mentorar hafa eftirlit með því að sérnámslæknirinn tileinki sér þá þekkingu, viðhorf og skilning í faginu sem kveðið er á um í Marklýsingunni.  Til að gera þetta þá funda mentorar og sérnámslæknar vikulega, en einnig er gert framvindumat sem allir starfsmenn koma að. Mentor fer reglulega yfir vinnubrögð sérnámslæknis með því að fara yfir færslur í tölvukerfi en fylgist jafnframt með sérnámlækni að störfum. Af og til eru samtöl sérnámslæknis og sjúklings tekin upp á vídeó og fer mentor síðan yfir þetta með sérnámslækninum. Engir aðrir fá að sjá þessi gögn sem síðan er eytt eftir þetta. Allir starfsmenn stöðvarinnar taka þátt í þjálfun sérnámslæknisins og gefa sitt álit reglulega á framgangi námsins. Árlega hittir sérnámslæknir síðan kennslustjóra sérnáms í Reykjavík og er þá farið yfir síðastliðið ár og gögn og umsagnir skoðaðar.

Læknar í sérnámi í heimilislækningum við HSU kynnast afar fjölbreyttu starfi ásamt því að vera góðum hópi sérfræðinga í sinni grein. Við HSU er nauðsynlegt að heimilislæknir hafi góða þekkingu á bráðalæknisfræði og slysum enda er rekin bráðamóttaka á Selfossi þar sem flestir heimilislæknarnir starfa ásamt hefðbundnu starfi heimilislæknis. Allir sérnámslæknar starfa einnig á þessari bráðamóttöku og taka vaktir. Þá sinna heimilislæknar margir hverjir hjúkrunarheimilum eins og tíðkast víða úti á landi og fá sérnámslæknar að kynnast þessu og taka þessi störf að sér. Heilsugæslan á Selfossi sinnir heilbrigðisþjónustu á Litla Hrauni og þessu kynnast sérnámlæknar í sínu starfsnámi.  Við HSU á Selfossi og í Vestmannaeyjum eru sjúkradeildir og koma sérnámslæknar að innlögnum þar í tengslum við sínar vaktir en starfa jafnframt náið með sjúkrahúslæknum með sína sjúklinga. Heilsugæslustöðvar við HSU eru margar, stærst er heilsugæslan á Selfossi en einnig eru tveir eða fleiri sérfræðingar í heimilislækningum við heilsugæsluna í Hveragerði, Laugarási og í Vestmannaeyjum. Í Vestmannaeyjum er í dag einn sérnámslæknir en markmiðið að aðrar stöðvar komi inn í sérnámið í framtíðinni. Með öflugu sérnámi í heimilislækningum við HSU verður hægt að þjálfa og sérmennta heimilislækna með þekkingu á störfum úti á landi sem er ákaflega mikilvægt með framtíðarmönnun landsbyggðarinnar í huga. 

 

15. mars 2018

Arnar Þór Guðmundsson yfirlæknir heilsugæslunnar á Selfossi, kennslustjóri HSU