Læknar í sérnámi í heimilislækningum

 

Við HSU eru nú 3 sérnámslæknar í heimilislækningum, tveir á Selfossi og einn í Vestmannaeyjum. Sérnám í heimilislækningum tekur 5 ár og fer rúmur helmingur námsins fram á heilsugæslustöð eða allt að þrjú ár.  Námið er starfsnám og á þessum tíma sinnir sérnámslæknirinn öllum almennum störfum heimilislæknis, er með fastan sjúklingahóp og móttöku fyrir þá, tekur vaktir, sinnir bráðamóttöku og tekur þátt í heilsuvernd og ungbarnaeftirliti. Allt er þetta gert undir umsjón og handleiðslu lækna stöðvarinnar. Til grundvallar sérnáminu er marklýsing fyrir sérgreinina og er kveðið á um í reglugerð að henni sé fylgt (sjá 8 gr. Stjórnartíðindi ).

 

Í upphafi sérnámsins fær sérnámslæknirinn mentor sem fylgir honum eftir allan námstímann. Mentor (handleiðari) er sérfræðingur í heimilislækningum sem hefur farið á til þess ætlað námskeið sem haldið er annað hvert ár. Hlutverk mentors er að hitta sérnámslækninn reglulega, fara yfir framvindu og skipuleggja námið, í samvinnu við kennslustjóra.  Mentor fylgist með styrkleikum og veikleikum og gefur viðeigandi endurgjöf.  Meðal þess sem gert er reglulega er að fara yfir færslur í sjúkraskrá (nótnafundir), gera reglulega formlegt mat á framvindu námsins en þá er fengið álit allra starfsmanna, og gera s.k. myndbandsgátun en þá er tekið upp samtal sérnámslæknisins og sjúklings sérlega með það í huga að skoða samskipti og hegðun í viðtali. Til viðbótar eru tilfellafundir vikulega, og fræðslufyrirlestrar einu sinni í viku, en sérnámslæknirinn tekur þátt í þeim ásamt öðrum læknum stöðvarinnar og er veitt umsögn um frammistöðuna.