Kæfisvefn

Björn MagnússonKæfisvefn var fyrir örfáum áratugum talinn sjaldgæfur enda var tækjabúnaður til greiningar fágætur og vanþróaður. Með aðgengilegri greiningu finnst sjúkdómurinn nú æ oftar og ekki síður vegna sterkra tengsla við sykursýki og offitu sem herja á vestræn þjóðfélög af vaxandi þunga.

Kæfisvefn einkennist af hrotum, svefnröskunum, og öndunarhléum sem talin eru marktæk ef þau vara í 10 sekúndur eða lengur, þótt oftast séu þau lengri. Öndunarhléunum fylgir svo fall í súrefnismettun blóðrauðans, aukinn hjartsláttur og hækkun blóðþrýstings enda er kæfisvefn algeng ástæða hjartsláttartruflana svo sem gáttatifs auk háþrýstings

Þegar öndunartruflanir koma fyrir 5 sinnum eða oftar á klukkustund telst kæfisvefn vera til staðar. Þegar öndunartruflanir eru 15-30 á klukkustund er kæfisvefn á meðalháu stigi og á háu stigi þegar öndunartruflanirnar fara yfir 30 á klukkustund. Öndunarhléin í kæfisvefni stafa oftast af þrengslum eða lokun einhvers staðar í efri hluta öndunarvegarins frá koki að nefi.

 

Algengi kæfisvefns er um 4% meðal karla en 2% meðal kvenna í vestrænum þjóðfélögum en rannsóknir benda þó til að algengið sé hærra hérlendis.

Helstu áhættuþættir eru offita, óeðlilegir mjúkvefir efri loftvega, erfðir og reykingar. Helmingur þeirra sem hafa líkamsþyngdarstuðul yfir 30 hafa kæfisvefn. Sjúklingar með kæfisvefn sofa illa vegna endurtekinna svefnraskana og eru þar af leiðandi sjaldnast úthvíldir þegar þeir vakna og auk þess gjarnan mjög syfjaðir þreyttir að degi til.

Dánarlíkur fullorðinna með kæfisvefn eru tvö til þrefaldar á við jafnaldra sem ekki eru með sjúkdóminn vegna blóðrásartengdra vandamála, slysahættu og annarra ástæðna.  

Svefnrannsóknir í heimahúsum voru hafnar haustið 2013 á vegum sjúkrasviðs HSU. Til þessa hafa verið framkvæmdar 120 rannsóknir sem lesið er úr á   sjúkrahúsinu á Selfossi. Áttatíu einstaklingar hafa greinst með kæfisvefn þar af 15 með sjúkdóminn á háu stigi og 28 á meðalháu stigi. Flestir þeirra hafa nú fengið svefnöndunartæki sem kemur í veg fyrir öndunarhléin og skaðlegar afleiðingar sjúkdómsins.

 

 

 

Fh. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Björn Magnússon

yfirlæknir sjúkrasviðs HSU á Selfossi